| fimmtudagurinn 9. jan˙ará2014

10 verkefni keppa um Eyrarrˇsina

Metfjöldi umsókna var í ár um verðlaunin Eyrarrósina, viðurkenningu til framúrskarandi menningarverkefna á landsbyggðinni. Verðlaununum er ætlað að beina sjónum að og hvetja til menningarlegrar fjölbreytni, nýsköpunar og uppbyggingar á sviði menningar og lista. Að verðlaununum standa Byggðastofnun, Flugfélag Íslands og Listahátíð í Reykjavík. Fjörutíu og sex fjölbreytt verkefni víða um land sóttu um að þessu sinni, en sú nýbreytni er nú tekin upp á tíu ára afmæli Eyrarrósarinnar að í stað þriggja tilnefndra verkefna, er nú birtur Eyrarrósarlistinn 2014, listi yfir tíu verkefni sem möguleika eiga á því að hljóta Eyrarrósina í ár. Í þeim hópi eru vestfirsku verkefnin Skrímslasetrið á Bíldudal og Kómedíuleikhúsið.

 

Þann 23. janúar næstkomandi verður sagt frá því hvaða þrjú verkefni hljóta viðurkenningu að þessu sinni. Eitt þeirra hlýtur að lokum Eyrarrósina, ásamt 1.650.000 króna peningaverðlaunum og flugferðum innanlands frá Flugfélagi Íslands, en hin tvö verkefnin hljóta 300.000 króna viðurkenningu og flugferðir frá Flugfélagi Íslands.

 

Eyrarrósarlistinn 2014 er svohljóðandi:

  

Verksmiðjan Hjalteyri

Hammondhátíð á Djúpavogi

Áhöfnin á Húna II

Skrímslasetrið á Bíldudal

Kammertónleikar á Kirkjubæjarklaustri

Tækniminjasafn Austurlands

Reitir á Siglufirði

Listasetrið Bær í Skagafirði

Kómedíuleikhúsið

Þjóðahátíð Vesturlands

 

Eyrarrósin verður afhent með viðhöfn laugardaginn 15. febrúar næstkomandi í Menningarmiðstöðinni Skaftfelli á Seyðisfirði. Dorrit Moussaieff forsetafrú, verndari Eyrarrósarinnar, afhendir verðlaunin að vanda.

Svipmynd