Búningar og barnagull nefnist sýning sem Þjóðbúningafélag Vestfjarða stendur að í samvinnu við Byggðasafn Vestfjarða og söfnin í Safnahúsinu á Ísafirði. Sýningin opnar þann 14. júní klukkan 13:00 og verður opin frá 13:00-16:00 á opnunardaginn, og eftir það á á opnunartíma Safnahússins. Á sýningunni Búningar og barnagull verða gamlir og nýir þjóðbúningar í eigu Byggðasafnsins og einstaklinga. Sérstök áhersla verður lögð á að sýna búninga barna og unglinga, auk gamalla leikfanga og annars sem tengist þjóðbúningum.

Á opnun sýningarinnar verða konur úr Þjóðbúningafélagi Vestfjarða íklæddar þjóðbúningum sem þær hafa verið að sauma undan farin ár undir handleiðslu Þjóðbúningastofu og Heimilisiðnaðarfélags Íslands. Allir sem eiga þjóðbúning eru hvattir til að mæta í honum á opnun sýningarinnar, hvort sem þau eru í félaginu eða ekki, til að gera sýninguna meira lifandi og skemmtilega.

Sýningin Búningar og barnagull er styrkt af Menningarráði Vestfjarða.

Fréttin er afrituð lítið breytt af fréttavefnum www.skutull.is.

Svipmynd