Grein eftir Leif Ragnar Jónsson, formann Menningarráðs

 

Nú nýverið skrifaði Fjórðungssamband Vestfirðinga, f.h. sveitarfélaganna á Vestfjörðum, undir viðaukasamning við samning sveitarfélaganna við Mennta- og menningarmálaráðuneytið um menningarmál og framlög til þeirra í fjórðungnum. Á síðasta ári tók Alþingi þá ákvörðun að hætta að úthluta fé af safnliðum í stofn- og rekstrarstyrki til menningarstofnana og færa það fremur heim í hérað. Með því móti er talið betur tryggt að fagleg sjónarmið verði grundvallandi við úthlutun þess fjár sem til þess er varið.  

 
Eins og mörgum er kunnugt hefur verið við lýði samningur um verkefnastyrki frá árinu 2007 og hefur sá samningur og það fé sem samkvæmt honum er veitt til menningarverkefna, sannað gildi sitt. Þeir fjármunir sem þar hefur verið úthlutað eru einungis ætlaðir til beinna verkefna en ekki til stofn- og/eða rekstrarstyrkja. Þannig hefur Menningarráði Vestfjarða, og öðrum menningarráðum, ekki verið heimilt að úthluta fé til reksturs menningarstofnana, viðhalds þeirra, tækjakaupa o.s.frv.  

Við undirritun viðaukasamningsins er auknu fé veitt til Menningarráðsins sem úthlutað skal til stofnkostnaðar og reksturs, samtals 11,4 milljónir, sérstaklega eyrnamerktar til þeirra hluta. Áfram verða veittir verkefnastyrkir eins og verið hefur frá árinu 2007. Ekki er heimilt og heldur ekki sanngjarnt að fé flæði á milli þessara tveggja potta og er það mat ríkjandi meðal rmenningarráðana allra. Því er ekki að leyna að talsverð vonbrigði urðu innan flestra menningarráða á landsbyggðinni vegna þeirra upphæða sem lagðar eru til með viðaukasamningnum. Ljóst er að í sumum tilfellum er allt að 45-50% niðurskurður miðað við hvað best gerðist áður í meðförum fjárlaganefndar Alþingis. Því má öruggt telja að vonbrigði geta orðið nokkur þegar kemur að því að fé þessu verður útdeilt.

Vissulega er það svo, að vandi steðjar að þegar ljóst er að hafna þarf allmörgum verkefnum miðað við hvað umsóknir geta orðið margar, enda er menningarlíf afburða öflugt og metnaðarfullt í fjórðungnum eins og sjá má t.d. á tilnefningum til Eyrarrósarinnar, menningaverðlauna sem veitt eru afburða menningarverkefni á landsbyggðinni. Af þremur verkefnum sem tilnefnd voru í ár voru tvö vestfirsk. Menningarráð Vestfjarða óskar aðstandendum þeirra verkefna hjartanlega til hamingju. 

 
Menningarráð Vestfjarða mun nú auglýsa þessa stofn- og rekstrarstyrki og vonast til að geta úthlutað þeim í apríl. Verkefnastyrkir verða einnig auglýstir, en athygli umsækjenda er vakin á því að Menningarráð Vestfjarða ákvað á fundi sínum 9. febrúar síðastliðinn að hafa einungis eina úthlutun á verkefnastyrkjum á þessu ári. Er það gert vegna talsverðs kostnaðar við úthlutunarferlið auk þess sem fjármagn til styrkja er minna nú en verið hefur áður og því vart tilefni til tveggja úthlutana.  

 
Leifur Ragnar Jónsson,
formaður Menningarráðs Vestfjarða

Svipmynd