| mi­vikudagurinn 14. nˇvemberá2007

Vestfirskt skßldskapar■ing

Vestfirsku skáldin nefnist dagskrá sem boðið verður upp á í Holti í Önundarfirði sunnudagin 18. nóvember kl. 16:00. Það er Vestfjarðaakademían í samstarfi við afmælisnefnd Guðmundar Inga Kristjánssonar sem efnir til þessa skáldskaparþings. Boðið verður upp á umfjöllun í tali og tónum um vestfirsk skáld frá ýmsum tímum.

Ólafur Þ. Harðarson, stjórnmálafræðingur mun flytja erindi um Guðmund Inga Kristjánsson. Andrea Harðardóttir mun fjalla um Jón úr Vör og Jakobínu Sigurðardóttur. Fluttur verður fyrirlestur Jónu Símoníu Bjarnadóttur um Steingerði Guðmundsdóttur – leikskáldið sem týndist í bókmenntasögunni. Bjargey Ingibjörg Gunnlaugsdóttir mun syngja lög af vestfirskum uppruna. Ólína Þorvarðardóttir, þjóðfræðingur, mun kveða stemmur við vestfirskar vísur og þulur og fjalla um vestfirsku skáldin.

Dagskráin er helguð minningu Guðmundar Inga Kristjánssonar skálds sem hefði átt aldarafmæli á þessu ári. Til sýnis og sölu verður afmælisdagabók með ljóðum skáldsins sem kemur út um næstu helgi. Bókina samdi Guðmundur Ingi á árunum 1927-32 og orti ljóð við hvern dag ársins.

Þau eru orðin æði mörg vestfirsku skáldin sem komið hafa við bókmenntasöguna frá upphafi, allt frá Völu-Steini Þuríðarsyni og Þormóði Kolbrúnarskáldi til yngri skálda á borð við Rúnar Helga Vignisson, Vilborgu Davíðsdóttur og Eirík Nordal. Á milli þessara höfunda geymir bókmenntasagan nöfn merkra skálda á borð við Matthías Jochumson, Jón Thoroddsen, Jón úr Vör, Guðmund Hagalín, Jakobínu og Fríðu Sigurðardætur og fleiri og fleiri. Dagskránni er ætlað að minna á þær gersemar sem Vestfirðingar eiga í íslenskri bókmenntasögu.

Boðið verður upp á kaffiveitingar meðan á dagskránni stendur og er hún öllum opin meðan húsrúm leyfir.

Svipmynd