| mi­vikudagurinn 14. nˇvemberá2007

104 umsˇknir um styrki frß Menningarrß­i

Alls bárust 104 umsóknir um styrk frá Menningarráði Vestfjarða, en umsóknarfrestur rann út snemma í nóvembermánuði. Umsóknir voru mjög fjölbreyttar og gaman að sjá hversu mikil gróska er í vestfisku menningarlífi, uppbyggingu þess og þróun. Þessi mikli fjöldi umsókna gefur líka glögga mynd af þeirri miklu og blómlegu menningarstarfsemi sem er í gangi á Vestfjörðum og sýnir hversu mikil þörf er fyrir sjóð sem þennan.

Menningarráð hefur þegar hafist handa við að grandskoða umsóknir og fjalla um þær og mun endanlegrar niðurstöðu vera að vænta nálægt mánaðarmótum nóvember og desember. Þær upphæðir sem sótt er um eru umtalsvert hærri en það fjármagn sem sjóðurinn hefur úr að spila, en samtals var sótt um styrki að upphæð 72,5 milljónir. Sjóðurinn er samkeppnissjóður, þannig að þeir sem gert hafa vandaðar umsóknir fyrir góð verkefni sem falla að úthlutunarreglum og markmiðum sjóðsins eiga góða von um stuðning.
| mi­vikudagurinn 14. nˇvemberá2007

Skugga-Sveinn Ý Edinborgarh˙sinu ß ═safir­i

Menningarmiðstöðin Edinborg; Litli Leikklúbburinn, Listaskóli Rögnvaldar Ólafssonar og Myndlistarfélagið á Ísafirði, setur upp langvinsælasta leikrit Íslandssögunnar, Skugga Svein, eftir Matthías Jochumsson í leikstjórn Hrafnhildar Hafberg í Edinborgarhúsinu á Ísafirði. Verkið verður frumsýnt laugardaginn 17. nóvember 2007. 

Leiksýningin er hin fyrsta sem Litli Leikklúbburinn setur upp í endurnýjuðu Edinborgarhúsi, nýju leikhúsi félagsins.  Leikritið Skugga-Sveinn var fyrsta leiksýning sem opin var öllum almenningi á Ísafirði. Það var árið 1879 og var Skugga-Sveinn þá sýndur í pakkhúsi Ásgeirsverslunar í Miðkaupstað. Það þykir því við hæfi að fyrsta sýning sem sett er upp í nýendurgerðu Edinborgarhúsi sé einmitt Skugga-Sveinn.
 
Leikmynd verksins er hönnuð af Jóni Sigurpálssyni og Pétri Guðmundssyni og er hún tileinkuð Sigurði Guðmundssyni málara sem var frumkvöðull í leikmyndahönnun á Íslandi. 

Á sýningartímabilinu verður boðið upp á leikhúskvöld í Edinborgarhúsinu – notalega kvöldstund í skammdeginu – út að borða á Kaffi Edinborg og í leikhús á eftir. Frumsýning er laugardaginn 17. nóvember, næstu sýningar eru 18., 25., 27. og 30. nóvember og 1. desember.  Miðapantanir og sala eru í síma 450-5555 og allar nánari upplýsingar má finna á vefsíðunni www.edinborg.is.
| mi­vikudagurinn 14. nˇvemberá2007

Vestfirskt skßldskapar■ing

Vestfirsku skáldin nefnist dagskrá sem boðið verður upp á í Holti í Önundarfirði sunnudagin 18. nóvember kl. 16:00. Það er Vestfjarðaakademían í samstarfi við afmælisnefnd Guðmundar Inga Kristjánssonar sem efnir til þessa skáldskaparþings. Boðið verður upp á umfjöllun í tali og tónum um vestfirsk skáld frá ýmsum tímum.

Ólafur Þ. Harðarson, stjórnmálafræðingur mun flytja erindi um Guðmund Inga Kristjánsson. Andrea Harðardóttir mun fjalla um Jón úr Vör og Jakobínu Sigurðardóttur. Fluttur verður fyrirlestur Jónu Símoníu Bjarnadóttur um Steingerði Guðmundsdóttur – leikskáldið sem týndist í bókmenntasögunni. Bjargey Ingibjörg Gunnlaugsdóttir mun syngja lög af vestfirskum uppruna. Ólína Þorvarðardóttir, þjóðfræðingur, mun kveða stemmur við vestfirskar vísur og þulur og fjalla um vestfirsku skáldin.

Dagskráin er helguð minningu Guðmundar Inga Kristjánssonar skálds sem hefði átt aldarafmæli á þessu ári. Til sýnis og sölu verður afmælisdagabók með ljóðum skáldsins sem kemur út um næstu helgi. Bókina samdi Guðmundur Ingi á árunum 1927-32 og orti ljóð við hvern dag ársins.

Þau eru orðin æði mörg vestfirsku skáldin sem komið hafa við bókmenntasöguna frá upphafi, allt frá Völu-Steini Þuríðarsyni og Þormóði Kolbrúnarskáldi til yngri skálda á borð við Rúnar Helga Vignisson, Vilborgu Davíðsdóttur og Eirík Nordal. Á milli þessara höfunda geymir bókmenntasagan nöfn merkra skálda á borð við Matthías Jochumson, Jón Thoroddsen, Jón úr Vör, Guðmund Hagalín, Jakobínu og Fríðu Sigurðardætur og fleiri og fleiri. Dagskránni er ætlað að minna á þær gersemar sem Vestfirðingar eiga í íslenskri bókmenntasögu.

Boðið verður upp á kaffiveitingar meðan á dagskránni stendur og er hún öllum opin meðan húsrúm leyfir.

Svipmynd