Inngangur

Strandsvæðin eru ekki undir lögsögu sveitarfélaganna, utan svæðis sem markast af línu 115 metrum frá stórstraumsfjöruborði. Þar af leiðandi eru svæði utan 115 metra ekki skipulagsskyld. Starfsemi á þessum svæðum er í umsjá og á forræði sex ráðuneyta og margra ólíkra stofnana, auk þess sem aðkoma sveitarfélaga að ákvarðanatöku er mjög takmörkuð. Stjórnsýsla og ákvarðanataka hefur því verið óskilvirk og yfirsýn lítil um heildarnýtingu svæðanna. Ljóst er að við þessar aðstæður er hætta á hagsmunaárekstrum, einkum samfara aukinni og fjölbreyttari nýtingu. Aukið álag vegna fjölbreyttari nýtingar kallar jafnframt á heildstætt skipulag strandsvæða. Þetta er líklega hvergi eins áberandi og á Vestfjörðum, þó einkum í Arnarfirði. Víða erlendis er unnið markvisst að samþættingu í stjórnun og skipulagi strandsvæða. Ísland hefur ekki verið áberandi í þeirri umræðu en breytingar eru að verða hér á. Má í því sambandi nefna að nú er unnið að innleiðingu vatnatilskipunar Evrópusambandsins á Íslandi, sem m.a. miðar að því að samþætta stjórnun þessara svæða og kallar það á nána samvinnu ríkis og sveitarfélaga.

 

Í verkefninu felst áætlanagerð sveitarfélaga um nýtingu strandsvæða Vestfjarða, með líkum hætti og gert er á landi. Tengist þetta viðleitni sveitarfélaga á Vestfjörðum til að efla svæðið með sameiginlegri stefnumótun er byggi á styrkleikum svæðisins. Þessir styrkleikar felast m.a. í haf- og strandsvæðunum og  þeim auðlindum sem þar er að finna. Auðlindum sem núverandi atvinnustarfsemi og samfélög á Vestfjörðum hafa verið, eru og verða grundvölluð á. Má í því sambandi m.a. nefna fiskveiðar, fiskeldi, flutninga, ferðaþjónustu, útivist, efnistöku  á hafsbotni, landfyllingar, virkjanir, vegagerð og aðra mannvirkjagerð. Þetta var vel undirstrikað á Þjóðfundi á Vestfjörðum sem haldin var þann 6. febrúar 2009, sem liður í undirbúningi Sóknaráæltunar 20/20.

 

Fjallað hefur verið um ávinning þess að skipuleggja nýtingu strandsvæðis við Vestfirði í nokkur ár. Að frumkvæði sveitarfélaga á Vestfjörðum hófst um mitt ár 2009 vinna á þessu sviði á vettvangi Fjórðungssambands Vestfirðinga í samstarfi við Háskólasetur Vestfjarða og Teiknistofuna Eik, Ísafirði.  54. Fjórðungsþing Vestfirðinga, haldið í september sama ár, ítrekaði vilja sveitarfélaganna með samþykkt eftirfarandi ályktunar:  

Sveitarfélög á Vestfjörðum óska eftir samstarfi við ríkisvaldið um skipulag strandsvæðis Vestfjarða. Það er mat Fjórðungsþings að Vestfirðir séu kjörið svæði til þess að þróa aðferðir og reglur í þessum mikilvæga málaflokki, auk þess sem þar má finna sértæka þekkingu og fjölbreyttar rannsóknir á þessu sviði.

 

Auk þess að vera hagsmunamál fyrir sveitarfélögin er hér jafnframt um að ræða nýsköpun Teiknistofunnar Eikar og Háskólaseturs Vestfjarða, sem miðar að því að skapa sérþekkingu á skipulagi á strandsvæðum. Slík þekking er af skornum skammti hér á landi en fyrirséð er að þörfin fyrir þekkingu á þessu sviði muni aukast með aukinni nýtingu þessara svæða og breyttu regluverki.

 

Það er mat samstarfsaðila að líta megi á Vestfirði sem kjörið tilraunasvæði hvað varðar gerð nýtingaráætlunar eða skipulags á strandsvæðum. Er það bæði vegna sterkra tengsla svæðisins við sjóinn og fjölbreyttrar nýtingar en einnig vegna áhuga og frumkvæðis heimamanna og  þeirrar þekkingar sem er til staðar á málefninu. Fyrstu skref í þessu verkefni voru tekin í nóvember 2009 þegar haldnir voru fjórir opnir fundir á Vestfjörðum, þar sem verkefnið var kynnt og aflað upplýsinga frá hagsmunaðilum og íbúum varðandi núverandi nýtingu strandsvæðisins. Í ljós kom á fundunum að áhugi almennings á málefninu er mikill. Í framhaldinu var ákveðið að afmarka verkefnið í fyrstu við Arnarfjörð. Arnarfjörður verður því skoðaður sem tilraunasvæði áður en ráðist verður í gerð nýtingaráætlunar fyrir alla Vestfirði. Nánar er fjallað um ástæður þess hér á eftir í kaflanum skipulagssvæðið.

 

Tímasetning verkefnisins er einnig heppileg nú þegar flest sveitarfélög á Vestfjörðum eru að ljúka við, eða hafa lokið við, aðalskipulagsáætlanir sínar og fyrir liggur að ráðast þarf í undirbúningsvinnu vegna innleiðingar vatnatilskipunar. Nýtingaráætlunin og sóknaráætlun fyrir Vestfirði, sem nú er unnið að, munu jafnframt styrkja hvora aðra.

Svipmynd