Fastanefnd FV um samg÷ngumßl

Br˙in yfir Mjˇafj÷r­ Ý Dj˙pi
Br˙in yfir Mjˇafj÷r­ Ý Dj˙pi

Innan vébanda Fjórðungssambands Vestfirðinga starfar Fastanefnd um samgöngumál, en henni var komið á laggirnar árið 2004. Nefndin fundar reglulega og gætir hagsmuna Vestfirðinga í samgöngu- og fjarskiptamálum, stendur fyrir stefnumótun í málaflokknum, heldur málþing og þrýstir á ríkisvaldið með margvíslegum hætti. Nefndin hefur samvinnu við sveitarfélögin á Vestfjörðum og ríkið eftir því sem mögulegt er. Skýrsla nefndarinnar er flutt árlega á Fjórðungsþingi Vestfirðinga og jafnan eru samþykktar þar ályktanir um samgöngumál sem beint er til stjórnvalda.

 

# Árlegar skýrslur Fastanefndar um samgöngumál

 

# Ýmsar skýrslur um samgöngumál á Vestfjörðum

 

# Fulltrúar í Fastanefnd um samgöngumál

 

# Fundargerðir Fastanefndar um samgöngumál

 

Samþykkt Fjórðungsþings Vestfirðinga 2014 um samgöngumál er svohljóðandi:

 

Bættar samgöngur á Vestfjörðum eru hagsmunir allra

 

59. Fjórðungsþing Vestfirðinga haldið á Þingeyri 3.-4. október 2014 gerir þá skýlausu kröfu til stjórnvalda að staðið verði við fyrirheit allra stjórnmálaflokka um að samgöngubætur á Vestfjörðum fái forgang í Samgönguáætlun til skemmri og lengri tíma. Hagkerfi og vaxtarmöguleikar Vestfjarða líða fyrir það að vegir og fjarskipti eru á mörgum stöðum árum og áratugum á eftir því sem gerist og gengur í nútímasamfélagi.

 

Brýnustu úrlausnarefnin eru:

  1. Að ákveða og koma í framkvæmd vegagerð um Gufudalssveit í Barðastrandarsýslu á Vestfjarðavegi 60 eigi síðar en á árinu 2015.
  2. Að standa við áætlanir og fyrirheit um gerð Dýrafjarðarganga 2016-2019 og að endurgerð vega um Dynjandisheiði verður flýtt eins og kostur er.
  3. Að vinna að uppbyggingu nýs vegar í Árneshrepp í áföngum, þar sem byrjað verði á vegi um Veiðileysuháls og Bjarnarfjarðarháls.
  4. Að jarðgöng á milli Ísafjarðar og Súðavíkur komist inn á Samgönguáætlun, sem næstu jarðgöng á eftir Dýrafjarðargöngum.

Með þessum áföngum verður loks hægt að segja að allir þéttbýlisstaðir á Vestfjörðum og öll byggðarlög hafi komist í ásættanlegt vegasamband innan héraðs og við aðra landshluta.

 

Fjórðungsþing Vestfirðinga minnir á, að á meðan stór hluti vega á Vestfjörðum er ekki kominn með bundið slitlag, er mikilvægt að tryggja fjármuni til viðhalds. Viðhald vega er mikilvægur öryggisþáttur sem ekki má gleymast.

 

Fjórðungsþing Vestfirðinga krefst þess að farið verði í endurbætur á vegum að helstu ferðamannaperlum Vestfjarða, svo sem Látrabjargi, Dynjanda, Trékyllisvík og Kaldalóni til að styðja uppbyggingu ferðaþjónustu og auka öryggi vegfarenda. Ljóst má vera að íslenskt þjóðfélag verður af miklum tekjum á ári hverju vegna vegaleysis á þessum stöðum.

 

Fjórðungsþing ályktar um láglendisveg um Gufudalssveit

 

Fjórðungsþing Vestfirðinga tekur undir samþykkt stjórnar FV frá 20. september síðastliðnum og beinir því til stjórnvalda að ljúka án frekari tafa undirbúningi og ákvarðanatöku, svo hægt sé að hefja lagningu nýs láglendisvegar um Gufudalssveit (Vestfjarðavegur 60) á árinu 2015.

 

Fjórðungsþing Vestfirðinga telur í þeim efnum, algjörlega óásættanlegt að tefja málið með því að kæra það til Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Þessi framkvæmd er grundvallar­atriði fyrir öryggi vegfarenda og eflingu byggðar á Vestfjörðum og má ekki dragast meira en þegar er raunin. Sú óvissa sem uppi hefur verið um framkvæmdina síðustu árin er óþolandi og hamlandi fyrir uppbyggingu og vöxt atvinnulífsins á Vestfjörðum. Það er krafa Vestfirðinga að það muni ekki bitna á öðrum nauðsynlegum samgönguverkefnum á Vestfjörðum, ef verkefnið verður kostnaðarsamara en að hefur verið stefnt hingað til.

 

Innanlandsflug til Ísafjarðar, Bíldudals og á Gjögur eru almenningssamgöngur

 

Áætlunarflug á milli Reykjavíkur og Ísafjarðar, Bíldudals og Gjögurs eru mikilvægustu almenningssamgöngur Vestfirðinga og lífæð byggðanna stóran hluta ársins. Brýnt er að standa vörð um þá þjónustu og öryggi sem flugsamgöngur veita íbúum á Vestfjörðum. Ljúka þarf lagningu slitlags á flugvöllinn á Gjögri. Fjármagn til endurbóta á flugvöllunum á Þingeyri, Bíldudal og Ísafirði hefur verið skorið niður við trog og verður ekki við það unað lengur. Þá minnir Fjórðungsþing á að mikilvægi Reykjavíkurflugvallar fyrir samgöngur á milli landsbyggðar og höfuðborgar verður aldrei of oft ítrekað.

 

Um hringtengingu ljósleiðara um Vestfirði

 

Þrátt fyrir verulegar umbætur á nettengingum undanfarið hafa nýlegir atburðir sýnt svo ekki verður um villst að hringtenging ljósleiðara um Vestfirði er alger forsenda þess að atvinnulíf og samfélag Vestfjarða nái að standa jafnfætis öðrum byggðarlögum í landinu. Fjórðungsþing Vestfirðinga heitir á stjórnvöld að standa við gefin fyrirheit um skjóta úrlausn þeirra mála. Lagning ljósleiðara frá botni Hrútafjarðar norður Strandir til Strandabyggðar og Kaldrananeshrepps þýðir að þessi svæði fá loks viðunandi netsamband sem er forsenda áframhaldandi uppbyggingar á svæðunum. Tenging Strandabyggðar við Ísafjörð gegnum Djúpið lokar hringnum og þannig mun gagnaflutningsnet um Vestfirði verða grundvöllur bættra búsetuskilyrða á Vestfjörðum og auka öryggi íbúa.

 

Um strandsiglingar

 

Fjórðungsþing Vestfirðinga leggur áherslu á að stjórnvöld haldi vöku sinni og tryggi framhald sjóflutninga í kringum landið.

 

Innanlandsflug

 

59. Fjórðungsþing Vestfirðinga haldið á Þingeyri dagana 3.-4. október 2014 mótmælir harðlega niðurskurði þeim sem birtist í fjárlagafrumvarpi ársins 2015 er snýr að flugvöllum og niðurgreiðslum til innanlandsflugs.
Það er mikið áhyggjuefni að framlög séu lækkuð um 5,2% til ISAVIA vegna flugvalla- og flugleiðsöguþjónustu. Engin fyrirmæli eru um hvar eða hvernig skuli standa að lækkuninni og er því ISAVIA í sjálfsvald sett hvort flugvöllum verði lokað eða þjónusta skert. Ljóst er þó að einhvers staðar mun þessi lækkun koma fram. Í ofanálag lækka styrkir til innanlandsflugs um 4 m.kr., og hefur fjárlagaliðurinn lækkað um 90 m.kr. frá árinu 2009. Áætlunarflugvöllum hefur fækkað en kostnaður flugrekenda hefur hækkað á sama tíma. Til að bæta í skömmina þá hafa stjórnvöld á hverjum tíma tekið til sín sparnað vegna fækkunar áætlunarflugvalla, í stað þess að nýta fjárveitinguna til að halda öðru flugi í horfinu. Að óbreyttu stafar innanlandsfluginu mikil ógn af fyrirætlunum ríkisvaldsins sem birtast í fjárlögum 2015. Þar hljóta Vestfirðirnir að vera í hættu.


59. Fjórðungsþing Vestfirðinga leggur mikla áherslu á að þessi stefna sem sett er fram í fjárlagafrumvarpinu verði endurskoðuð, enda er innanlandsflugið lífæð landsins, bæði hvað varðar fólks- og vöruflutninga. Ljóst er að aukinn niðurskurður á þessu sviði hefði alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir landið allt. Fjórðungsþing hvetur jafnframt stjórnvöld til að breyta reglugerðum þannig að hægt sé að færa fjármagn frá Keflavíkurflugvelli og inn í innanlandsflugið, enda hlýtur það að styðja við hvort annað, innanlandsflugið og millilandaflugið. Fordæmi fyrir slíku má meðal annars finna í Noregi.

 

Uppbygging alþjóðaflugvallar á Vestfjörðum


59. Fjórðungsþing Vestfirðinga haldið á Þingeyri 3. og 4. október 2014 skorar á stjórnvöld að hefja undirbúning að uppbyggingu alþjóðaflugvallar á Vestfjörðum. Í ljósi nálægðar við gjöful fiskimið, mikla uppbyggingu fiskeldis og aukins áhuga erlendra ferðamanna á fjórðungnum er alþjóðlegur flugvöllur mikilvæg forsenda fyrir frekari atvinnuuppbyggingu í landshlutanum. Alþjóðlegur flugvöllur mun einnig jafna samkeppnisstöðu fjórðungsins við aðra landshluta sem og búsetuskilyrði á milli þeirra.

Svipmynd