Ferli umhverfisvottunar

Á Fjórðungsþingi Vestfirðinga sem haldið var á Hólmavík 3.- 4. september 2010 var fjallað um tillögu þess efnis að stefna bæri á að fá Vestfirði umhverfisvottaða. Var þá eftirfarandi ályktun færð til bókar.

 „Fjórðungsþing Vestfirðinga samþykkir að stefna að sameiginlegri umhverfisvottun Vestfjarða í heild samkvæmt staðli EarthCheck undir forystu Fjórðungssambands Vestfirðinga. Þingið felur stjórn og framkvæmdastjóra að kynna hugmyndina og kanna vilja sveitarstjórna og sækja um aðild að EarthCheck fyrir Vestfirði í heild ef viðbrögð verða jákvæð.“

 

Nokkurn tíma tók að kanna nánari forsendur málsins en þann 12. júlí 2011 var sent bréf til sveitarfélaga á Vestfjörðum þar sem óskað var eftir samþykkis sveitarstjórna á svæðinu við að hefjast handa við forvinnu við umhverfisvottun Vestfjarða. Öll sveitarfélögin samþykktu áframhaldandi vinnu, þó settu tvö sveitarfélög fyrirvara um kostnað.

  

Á Fjórðungsþingi þann 2.og 3. september 2011 var samþykkt að leggja Umhverfisvottun Vestfjarða fram sem eitt af sjö verkefnum í Sóknaráætlun landshluta, það hlaut þó ekki brautargengi sem slíkt.

  

Þann 8. nóvember 212  tóku sveitarfélögin á Vestfjörðum þá ákvörðun að gerast meðlimir hjá umhverfisvottunarsamtökunum EarthCheck. En það eru einu umhverfisvottunarsamtökin sem votta samfélög í heiminum í dag. Með þessu voru sveitarfélögin að skuldbinda sig til þess að taka mið af náttúrunni í öllum ákvörðunum sínum og tryggja sjálfbærni þeirra auðlinda sem eru til staðar á svæðinu.

  

Verkefnið er unnið af Fjórðungssambandi Vestfirðinga en hugmyndin kemur upprunalega frá Ferðamálasamtökum Vestfjarða, sem sýnt hefur verkefninu mikinn áhuga. Umhverfisvottun hefur verið eitt af viðfangsefnum síðustu tveggja Fjórðungsþinga og greinilegur áhugi sveitarstjórnarmanna á málefninu. Í upphafi ársins 2012 fékkst fjárstyrkur frá umhverfisráðuneytinu vegna undirbúningsvinnu fyrir Umhverfisvottaða Vestfirði.

  

Tekið hefur mun lengri tíma að koma verkefninu áfram en var það bæði vegna þess að ákveðin tímamót voru hjá EarthCheck á Íslandi og einnig það að enginn var til að sinna málefnum þeirra hér á landi. Það var þó í lok sumars 2012 sem EarthCheck samdi við Guðrúnu Bergmann um að taka að sér umboðssölu fyrir fyrirtækið. Í september 2013 var svo ráðinn nýr verkefnastjóri hjá Fjórðungssambandi Vestfjarða sem hefur yfirumsjón með að vinna að umhverfisvottuninni og eftir það hefur málið aftur farið á skrið. 

  

Búið er að safna saman gögnum í öllum sveitarfélögum og þann 18. nóvember 2013 voru þau gögn send til EarthCheck til úrvinnslu og er nú beðið eftir að fá niðurstöðu þeirra til að geta sett inn í skýrslu til að kynna áfram.

 

 Árið 2014 er svo áætlað að kynna þá vinnu sem búið er að vinna og einnig þá möguleika sem það getur falið í sér fyrir íbúa og fyrirtæki á svæðinu að Vestfirðir verði umhverfisvottaðir.  

Svipmynd