Fara í efni

Elfar Logi fékk Menningarverðlaun DV

Fréttir
Elfar Logi í hlutverki Gísla Súrssonar
Elfar Logi í hlutverki Gísla Súrssonar

Það var gleðidagur í herbúðum Kómedíuleikhússins í gær, miðvikudaginn 5. mars, þegar Menningarverðlaun DV voru afhent. Kómedíuleikarinn, Elfar Logi Hannesson, var tilnefndur til Menningarverðlauna DV í flokki leiklistar eins og áður hefur komið fram. Var hann tilnefndur fyrir leiklistarhátíðina Act alone á Ísafirði sem hefur verið haldin síðan 2004 og er enn í dag eina árlega leiklistarhátíðin á Íslandi.

Á vefnum www.komedia.is segir: "Mikið þótti Kómedíu nú vænt um þessa tilnefningu frá DV fólkinu enda eru þessi Menningarverðlaun söguleg og stórmerkilegt framtak hjá dagblaðinu. Menningarverðlaun DV voru kunngerð á Hótel Borg og hlaut Kómedíuleikarinn sérstök Netverðlaun Menningarverðlauna DV. En lesendum dv.is var boðið uppá að kjósa sitt uppáhald af þeim fjölda listamanna sem tilnefndir voru. Það verður að viðurkennast að sá Kómíski átti alls ekki von á þessu og var nærri búinn að missa Sprite glasið sem hann hélt á í hendinni í gólfið svo mikið varð honum um þegar verðlaunin voru tilkynnt. Vá, maður segir nú bara ekki meira. Að finna svona stuðning frá fólkinu í landinu er alveg ómetanlegt. Act alone er greinilega hátíð fólksins og ljóst að margir fíla það í botn sem þar hefur verið gert. Kómedíuleikhúsið þakkar ykkur öllum og hlakkar til að sjá ykkur á Act alone í sumar dagna 2. - 6. júlí. Þið eruð best."