Vestfjarðastofa er þátttakandi í verkefninu Rural Europe for the Clean Energy Transition (RECET). RECET hlaut áríð 2023 styrk sem nemur um 1,5 milljónum evra (225 milljónum ISK) úr LIFE styrktaráætlun Evrópusambandsins sem leggur áherslu á umhverfis- og loftslagsmál. Verkefnið er samstarfsverkefni fimm landa og fjölmargra sveitarfélaga, og er það leitt af Íslendingum. RECET er ætlað að efla getu sveitarfélaga á fimm svæðum í Evrópu til að takast á við orkuskipti og smíða orkuskiptaáætlanir fyrir svæðin í samvinnu og samstarfi við hagsmunaaðila og atvinnulíf.
Sveitarfélög í dreifðum byggðum munu gegna lykilhlutverki í orkuskiptum og innleiðingu aðgerða sem miða að markmiði Evrópusambandsins um kolefnishlutleysi 2050 og lögfest markmið Íslands um kolefnishlutleysi 2040. Aðkoma sveitarfélaga er nauðsynleg þar sem uppbygging orkuinnviða þarf að eiga sér stað, sérstaklega í skipulagsgerð og leyfisveitingum.
Í RECET verkefninu verður stuðst við reynslu og aðferðir Energiakademiet frá eyjunni Samsø í Danmörku við mótun og þróun aðgerða til orkuskipta á hverju landsvæði fyrir sig. Energiakademiet hefur áratuga reynslu af því að þróa og innleiða svæðisbundnar orkuskiptaáætlanir.
Íslensk Nýorka og Eimur leiða verkefnið hér á landi en Vestfjarðastofa og Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra eru einnig þátttakendur. Utan Íslands koma einnig að RECET: Sveitarfélagið Postojna í Slóveníu, Blekinge sýsla í Suðaustur-Svíþjóð og sveitarfélög á eyjunni Menorca á Spáni.
Á Vestfjörðum taka þátt sveitarfélögin: Ísafjarðarbær, Vesturbyggð, Reykhólahreppur og Bolungarvíkurkaupstaður, ásamt fyrirtækjunum Bláma, Orkubúi Vestfjarða, Odda HF og Háskólasetri Vestfjarða sem tengjast verkefninu í gegnum Vestfjarðastofu.
Ef fleiri sveitarfélög, eða aðrir hagsmunaaðilar, hafa áhuga á að taka þátt í verkefninu með einum eða öðrum hætti eru þau eindregið hvött til að hafa samband við verkefnisstjóra.
Verkefnið hófst 1. október 2023 og stendur yfir í þrjú ár.
Nánari upplýsingar veitir Hjörleifur Finnsson, hjorleifur@vestfirdir.is