Fiskeldi hefur í Sóknaráætlun Vestfjarða verið skilgreint sem áhersluþáttur og verkefni Vestfjarðastofu er að styðja við uppbyggingu atvinnugreinarinnar með hagsmunagæslu, atvinnuþróun og nýsköpun.
Fiskeldi er einn helsti vaxtarbroddur atvinnvinnulífs á Vestfjörðum. Helst hagsmunamál Vestfjarða er að byggja upp sjálfbæra atvinnugrein þar sem lagarammi greinarinnar og tekjustofnar sveitafélaganna eru skýrir. Ef framleidd verða 51.000 tonn á Vestfjörðum eins og áætlanir gera ráð fyrir má gera ráð fyrir 640 beinum störfum og 390 óbeinum og afleiddum störfum á Vestfjörðum. Það eru spennandi tækifæri í greininni hvað varðar fjölbreytt störf þar sem greinin spannar fjölda fræði- og tæknigreina og Vestfirðir gætu snúið vörn í sókn og byggt upp öfluga innviði.
Hjá Vestfjarðastofu hefur verið lögð áhersla á að fylgjast með þróun fiskeldisgreinarinnar. Til að fá mælanleg gögn vann RHA viðhorfskönnun þar sem Vestfirðingar voru spurðir um fiskeldi og KPMG vann nýja greiningu á áhrifum fiskeldis fyrir Vestfirði vorið 2021 í samstarfi við Vestfjarðastofu. Til að efla samtalið um greinina voru haldnir fiskeldisfundir á Patreksfirði og Ísafirði í september 2021 og var þáttaka fyrirtækja og íbúanna góð.