Hjá Vestfjarðastofu starfar teymi atvinnu- og byggðaþróunar sem hefur það hlutverk að gæta hagsmuna Vestfirðinga í innviðamálum en þar eru helstu áherslurnar orku- og samgöngumál.
Sjávarútvegsklasi Vestfjarða hittist reglulega en þar koma saman sjávarútvegsfyrirtækin og ræða þau mál sem á þeim brenna hverju sinni auk þess sem klasinn stendur að háskólastyrkjunum "Hafsjór af hugmyndum" þar sem markmiðið er að styrkja háskólanema til rannsókna sem efla greinina og skapa tengsl milli fyrirtækjanna og háskólanema.
Vestfjarðastofa hefur unnið viðhorfskannanir og rannsóknir á fiskeldi auk þess að standa fyrir viðburðum þar sem fiskeldi á Vestfjörðum hefur verið kynnt og rætt.
Verið er að vinna að fjárfestingasíðu þar sem helstu upplýsingar um tækifæri á Vestfjörðum munu liggja fyrir á einum stað. Á vordögum var stofnaður Sóknarhópur Vestfjarðastofu sem samanstendur af vestfirskum fyrirtækjum og skapar vettvang til að ræða saman og vinna að hagsmunamálum fyrirtækjanna.
Helsta markmið teymisins er að efla nýsköpun og skapa umhverfi sem styrkir atvinnulífið.