Fara í efni

MERSE

MERSE

Vestfjarðastofa er þáttakandi í verkefninu MERSE, Business Models Empowering Rural Social Entrepreneurship voicing the rural norm. Markmiðið MERSE er að þróa viðskiptamódel, stuðningskerfi og aðstæður fyrir samfélags-frumkvöðla sem annað hvort vilja stofna eða þróa samfélagsdrifin verkefni í dreifðum byggðum.

Verkefnið hlaut á vormánuðum 2023 styrk úr Norðurslóðaáætluninni (Northern Periphery and Arctic Programme) og auk Vestfjarðastofu vinna að því; Mid Sweden University (SE) sem leiðir verkefnið, Companion Co-operative Development (SE), KBT Vocational School (NO), The Gaeltacht Authority (IE) og University of Helsinki (FI). Í samstarfinu verður farið í að greina með hvaða hætti stuðningi við samfélagslega nýsköpun verði best háttað með því að kalla að borðinu samfélagslega frumkvöðla, fyrirtæki, sveitarfélög, ráðgjafa og fræðafólk í löndunum fimm. Unnið er út frá því að þessi vinna muni skila sér í hentugu stuðningsmódeli fyrir þessa tegund nýsköpunar og reksturs. Þá er því einnig ætlað að skapa betri tækifæri fyrir þau sem vilja þróa sjálfbæra frumkvöðla- og samfélagsstarfsemi sem stuðlað getur að bættum búsetuskilyrðum á öllu starfssvæði áætlunarinnar.

Innan samfélaga er iðulega að finna verkefni sem hið opinbera og einkageirinn ná ekki yfir. Verkefni sem eru á hendi frumkvöðla sem vilja gera gagn og styðja við þróun á sínu svæði. Eitt af markmiðum MERSE er að komast að því hvað er sameiginlegt með slíkum verkefnum í þátttökulöndunum og hvað kann að vera frábrugðið.

Hvað er samfélagslegur frumkvöðull?

Í ritinu Samfélagslegir frumkvöðlar, gildi og mikilvægi, fjallar Árdís Ármannsdóttir um fyrirbærið.

Í augum samfélagslegra frumkvöðla er sköpun samfélagslegsávinnings markmiðið frekar en fjárhagslegur hagnaður. Með frumkvöðlastarfi þeirra stefna þeir frekar að sameiginlegum ávinningi samfélagsins en persónulegum gróða. Samfélagslegir frumkvöðlar eru mikilvægir byggðunum þar sem líklegt er að þeir beri kennsl á samfélagsleg tækifæri og komi auga á vandamál sem leysa þarf, en stjórnvöld og rótgróið atvinnulíf takast ekki á við. Þó samfélagslegt frumkvöðlastarf sé alls ekki eina lausnin á vanda samtímans er það mikilvægur liður í heildarmyndinni þar sem það styrkir nærumhverfið og stuðlar að því að það geti tekist á við þær áskoranir sem það stendur frammi fyrir.

Límið í þessari tegund nýsköpunar er ákveðin skuldbinding við samfélagið þar sem leiðarljósið er að skapa samfélagsleg verðmæti úr þeim auðlindum og því fjármagni sem er til staðar. Nýjum tímum fylgja nýjar áskoranir og er þróun hins fjölbreytta nútímasamfélags sífelld áskorun sem kallar á aðrar lausnir en þær sem hafa verið beitt. Kallað er eftir lausnum sem fela í sér bætt lífsgæði íbúa og aukna velferð og ekki er lengur hægt að beita viðmiðum í árangri sem einungis fela í sér arðsemi.

Hér á landi hefur þó umræðan um mikilvægi samfélagsfrumkvöðla verið takmörkuð og aðgerðir til að veita þeim stuðning þar af leiðandi verið takmarkaðar. Hljóti frumkvöðlastarfsemi af þessu tagi nauðsynlegan stuðning felur það í sér félagsleg verðmæti sem getur leitt til hagvaxtar.

Ef skapa á sterkt og heilbrigt samfélag, kallar það á skýra framtíðarsýn og samfélagslega skuldbindingu. Framtíðarsýnin þarf að fela í sér markmið og til þess að ná þeim þurfa öflugir einstaklingar að láta til sín taka og vera í fararbroddi innan sinna samfélaga. Þá er nauðsynlegt að átta sig á hvernig, hvort og hvaðan þeir fá hvatningu til að takast á við verkefnin. Með þekkingu á því er hægt að útvega réttan stuðning og er það einmitt það sem MERSE er ætlað að greina.

Þegar samfélagsstörf verða miðstýrð hverfa þau oft frá jaðarsvæðum. Staðbundið frumkvæði getur skapað tækifæri, sérstaklega fyrir ungt fólk og konur, að vera frumkvöðlar á landsbyggðinni. Auk þess sem það getur skapað tækifæri fyrir brottflutta til að snúa aftur. Það getur skipt sköpum að veita stuðning við stofnun slíkra fyrirtækja í dreifbýli. - Yvonne von Friedrichs, prófessor við Mittuniversitetet sem leiðir verkefnið.

Hlekkir á frekari upplýsingar hér: 

Heimasíða verkefnisins
Um MERSE á síðu Norðurslóðaáætunarinnar
Facebook

 

Tengdar fréttir