Ungmennaráð Vestfjarða starfar sem ráðgefandi nefnd fyrir stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga. Ráðið er kjörið til eins árs í senn. Á árlegu ungmennaþingi að hausti er kjörinn einn aðalmaður og einn varamaður úr hverju sveitarfélagi á Vestfjörðum þar sem ungmenni eru búsett. Kjörgeng eru þau sem verða 13-18 ára á árinu sem þingið fer fram og eiga lögheimili á Vestfjörðum.
Ungmennaráð fundar að lágmarki þrisvar sinnum á ári og hittist þar af á einum staðfundi. Ungmennaþing eru haldin árlega, ungmennaráð ákvarðar þema þingsins.
Ungmennaþing Vestfjarða
Ungmennaþing Vestfjarða fer fram á Ísafirði dagana 11.-12. Apríl 2024. Þar munu koma saman 54 ungmenni frá öllum Vestfjörðum, en þingið er opið ungmennum fæddum á árunum 2006-2011 með lögheimili á Vestfjörðum.
Markmið þingsins er að gefa ungmennum frá Vestfjörðum tækifæri til að kynnast hvort öðru, fræðast um samfélagið og valdefla þau til að láta skoðanir sínar í ljós og hafa áhrif. Þinginu lýkur með kjöri í Ungmennaráð Vestfjarða, sem starfar sem ráðgefandi nefnd fyrir stjórn Fjórðungssamband Vestfirðinga.
Á þinginu munu þátttakendur hljóta fræðslu, fá tækifæri til að tjá sig og læra hvert af öðru, ásamt því að fara í sund og skemmta sér saman á kvöldvöku.
Þátttaka á þinginu er gjaldfrjáls.
Lokað er fyrir skráningu
Fyrir nánari upplýsingar má hafa samband við Vilborgu Pétursdóttur verkefnastjóra á netfangið vilborg@vestfirdir.is.