Fara í efni

Ályktanir stjórnar Fjórðungssambands Vestfirðinga

Fréttir

Eftirfarandi ályktanir voru samþykktar á fundi stjórnar Fjórðungssambands Vestfirðinga þann 3. maí síðastliðinn.

 

Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga áréttar að undirbúningur verkefna sem samþykkt voru á fundi ríkisstjórnar þann 5. apríl s.l. á Ísafirði, fór fram án formlegs samráðs við forsvarsmenn sveitarfélaga eða stofnana þeirra. Verkefnin í heild  munu hafa jákvæð áhrif fyrir samfélög og atvinnulíf á Vestfjörðum, en gera verður alvarlegar athugasemdir varðandi misskiptingu þeirra gagnvart einstökum svæðum innan Vestfjarða. Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga skorar því á ríkisstjórn Íslands að auka við fjárveitingu til verkefnatillögu nr. 2. (Tryggt verði áframhaldandi gott framboð á námi á framhaldsskólastigi á Vestfjörðum). Gerð er sú krafa að sett verði aukið fjármagn til þessa verkefnis eða sem nemur 10 milljónir króna. Verði þeim fjármunum ráðstafað til sveitarfélagsins Strandabyggðar til að hefja undirbúning að stofnun framhaldsdeildar á Hólmavík, sem nýtast muni Strandabyggð sem og nágranna sveitarfélögum í Strandasýslu, í Reykhólahreppi og hugsanlega víðar.

 

Ályktun um viðhald Vestfjarðavegar nr. 60

Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga skorar á innanríkisráðherra að bregðast nú þegar við vegna ástands Vestfjarðavegar 60 og setja aukið fjármagn í viðhald vegarins þar sem malarkaflar hans hafa verið nánast óökufærir síðustu vikur. Á meðan það óvissuástand sem nú er uppi varðandi uppbyggingu vegarins, er mikilvægt að veginum sé þó viðhaldið og honum haldið ökufærum. Hér er um að ræða gríðarlega mikilvæga samgönguleið fyrir samfélag og atvinnulíf á Vestfjörðum. Auk þess sem reiknað er með mikilli aukningu ferðamanna til Vestfjarða á komandi sumri.

 

Ályktun um stöðu mjólkurframleiðslu á Vestfjörðum

Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga lýsir yfir þungum áhyggjum vegna þess samdráttar sem orðið hefur í  starfsemi Mjólkursamsölunnar ehf. á Vestfjörðum. Aðgerðir þær sem nú blasa við eru að á Patreksfirði hefur starf mjólkurbílstjóra verið lagt niður, einnig eiga sér stað víðtækar skipulagsbreytingar í mjólkurbúinu á Ísafirði sem m.a. felast í því að staða mjólkurfræðings hefur verið sameinuð öðrum mjólkurbúum en með staðsetningu í Reykjavík.

 

Afleiðingar þessara aðgerða eru ógn við öryggi mjólkurframleiðenda í Vesturbyggð enda færð víða slæm yfir vetrartímann eins og sannaðist í vetur. Þá er mikil hætta á að við þessar breytingar skerðist afhendingaröryggi mjólkurafurða verulega, þar sem öll mjólk til sunnanverðra Vestfjarða er flutt með bílum. Hinsvegar er hægt og hægt verið að leggja af sérhæfðan og til þess að gera stóran vinnustað á Ísafirði. Skorar stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga á stjórnendur Mjólkursamsölunnar ehf. að endurskoða þessi áform og leita eftir samvinnu við aðila í atvinnuþróun á Vestfjörðum til að leita nýrra leiða fyrir starfsemi félagsins á Vestfjörðum.

 

Nánari upplýsingar veitir formaður stjórnar Albertína Friðbjörg Elíasdóttir í síma 848 4256.