Fara í efni

Byggðasafn Vestfjarða opnað

Fréttir

Formlega opnun Byggðasafns Vestfjarða þetta sumarið var um helgina. Starfsemi safnsins í sumar verður með hefðbundnum hætti og að vanda verður þurrkaður saltfiskur á reitum þess. Einnig verður boðið upp á siglingar á Pollinum á vélbátnum Gesti frá Vigur.

Á fimmtudag var opnuð sýning á harmonikkusafni Ásgeirs S. Sigurðssonar í Turnhúsinu, samhliða því að Ásgeir afhenti Byggðasafni Vestfjarða harmonikkusafn sitt til varðveislu. Verður sýningin opin á opnunartíma safnsins í sumar. Þar verða sýndar nokkrar harmonikkur úr safni Ásgeirs og í sumar mun Ásgeir vera á staðnum eftir atvikum og gera við harmonikkur á verkstæði sínu sem einnig hefur verið sett upp í Turnhúsinu. Þeir sem yndi hafa af harmonikkuleik geta fengið að grípa í hljóðfæri sem verður til taks ef menn finna hjá sér löngun til að taka lagið.

Vill Byggðasafnið hvetja bæjarbúa og nærsveitarmenn til að líta við í Neðstakaupstað um helgina og heimsækja safnið.

Opnunartímar í sumar eru sem hér segir:

Virka daga:
Júní kl. 10-17
Júlí kl. 10-18
Ágúst kl. 10-17

Um helgar:
Júní kl. 13-17
Júlí – ágúst kl. 10-17