Fara í efni

Evrópskt og bandarískt tónlistarfólk heimsækir Ísafjörð

Fréttir

Tuttugu og fimm manna hópur tónlistarfólks er staddur á Ísafirði þar sem hann mun funda yfir helgina. Hópurinn kemur hingað á vegum Evrópuverkefnisins Joint Music Masters for New Audiences and Innovative Practice. „Tilgangur þessa viðamikla verkefnis er að búa til nýtt meistaranám í tónlist sem styrkir tónlistarfólk framtíðarinnar til að takast á við nýjar áskoranir í tónlistarheiminum: auka sveigjanleika tónlistarmanna, breikka starfssvið þeirra, fjölga starfsleiðum og símenntunarmöguleikum“, segir í tilkynningu. Um er að ræða verkefnishópa, stýrihóp, gæðastjórnunarhóp og námsefnishóp, sem verða á stífum vinnufundum til sunnudags en einnig munu þau nýta tímann til að skoða áhugaverða staði á svæðinu og njóta gestrisni heimamanna. Verkefnishóparnir funda á mismunandi stöðum nokkrum sinnum á ári og í þetta sinn varð Ísafjörður fyrir valinu.

Ísafjarðarbær hefur tengst verkefninu vegna náinnar og farsællar samvinnu og tengsla Tónlistarskóla Ísafjarðar við Listaháskóla Íslands mörg undanfarin ár. Bæði hafa 1.árs tónlistarnemar LHÍ heimsótt TÍ árlega, margir nemar þeirra hafa komið til Ísafjarðar til að halda tónleika og eins hafa allmargir nemar úr TÍ stundað nám við Listaháskólann og staðið sig þar með mikilli prýði svo eftir er tekið. Tónlistarskólinn er tengill („external partner“) Listaháskólans í verkefninu og hefur m.a. skipulagt fundahöld hópsins hér vestra.

Tónlistarfólkið kemur frá ýmsum virtum háskólum í Evrópu og Bandaríkjunum, The Guildhall School of Music í London, hollensku tónlistarháskólunum í Groningen og Haag, tónlistarháskólanum í Jyväskylä í Finnlandi, Listaháskóla Íslands og tónlistarháskólanum í Georgia í Bandaríkjunum. Leitast verður við að tengja Háskólasetur Vestfjarða inn í þetta verkefni og mun Peter Weiss forstöðumaður Háskólasetursins sitja fundi með hópnum.

„Vonir standa til að í framtíðinni muni einhverjir þeirra sem fara í þetta nýja meistaranám koma til Ísafjarðar og vinna hér einhver lokaverkefni, í samvinnu við Háskólasetrið, Tónlistarskólann eða aðra listaskóla á svæðinu, menntaskóla eða grunnskóla, Tankinn, sjúkrahúsið, jafnvel einhver fyrirtæki o.s.frv“, segir í tilkynningu.

Þessi frétt er afrituð óbreytt af fréttavefnum www.bb.is.