Pétur og úlfurinn eru loks væntanlegir til Ísafjarðar! Tónlistarfélag Ísafjarðar og Tónlistarskóli Ísafjarðar standa fyrir einstaklega skemmtilegum tónleikum í Hömrum laugardaginn 12. apríl klukkan 15. Í tilefni af 60 ára afmæli félagsins og skólans á þessu ári verður að þessu sinni boðið upp á fjölskyldutónleika þar sem flutt verða tónverk í máli, myndum og tónum.
Á efnisskránni eru tvö tónverk. Fyrra verkið er „Myndir á sýningu” eftir rússneska tónskáldið Modest Mussorsky. Tónverkið er safn verka sem túlka tíu málverk eftir listmálarann Victor Hartmann. Hitt tónverkið er „Pétur og úlfurinn” eftir Sergei Prokofiev. Prokofiev samdi bæði texta og tónlist þessa fallega tónverks á aðeins einni viku árið 1936, í þeim tilgangi að kenna börnum að skilja og njóta tónlistar. Í Pétri og úlfinum er sögð saga af litlum dreng, afa hans, öndinni, úlfinum og fleirum og er sagan sögð með hljóðfærum auk sögumanns. Verkið hefur notið mikilla vinsælda æ síðan og hefur verið á verkefnaskrá hljómsveita um allan heim og nýlega fékk teiknimynd um Pétur og úlfinn Óskarsverðlaun í flokki stuttra teiknimynda.
Sögumaður á tónleikunum er leikarinn Sigurþór Albert Heimisson, en aðrir flytjendur eru hljóðfæraleikararnir Pamela De Sensi á þverflautu, Eydís Lára Franzdóttir á óbó, Rúnar Óskarsson á klarínett, Kristín Mjöll Jakobsdóttir á fagott og Emil Friðfinnsson á horn. Myndir sem tengjast tónverkunum er varpað á tjald á meðan á flutningi stendur.
Tónleikarnir standa yfir í um klukkutíma og er aðgangseyrir kr.1.500 en kr. 800 fyrir börn yngri en 16 ára.