Á næstu vikum standa Impra á Nýsköpunarmiðstöð og Ferðamálastofa fyrir vinnufundum til að kynna nýtt verkefni í menningartengdri ferðaþjónustu. Verður vinnufundur á Ísafirði þann 16. júní kl. 9:30-12:30. Verkefnið hefur fengið nafnið Gáttir – þróunarverkefni í menningartengdri ferðaþjónustu. Um er að ræða verkefni á vegum Iðnaðarráðuneytis unnið af Impru á Nýsköpunarmiðstöð og Ferðamálastofu í samvinnu við Háskólann á Hólum.
Þróunarverkefni þau sem hér um ræðir eru á sviði vöruþróunar í ferðaþjónustu; þeim er einkum ætlað að búa til nýja kosti sem haft geta áhrif á ferðatilhögun eða dvalarlengd ferðamanna en einnig að svara eftirspurn sem þegar er til staðar og hefur ekki hingað til verið sinnt. Horft til þess annars vegar að efla þá menningartengdu ferðaþjónustu sem fyrir hendi er og hins vegar að því að kynna ný sóknarfæri til frekari uppbyggingar í héraði.
Tilgangur verkefnisins er að efla ferðaþjónustu með því að vinna úr svæðisbundnum menningarverðmætum, bæði í einstökum héruðum og á landsvísu. Ennfremur að efla skilning og samstarf milli héraða og innan héraðs á því að þróa vöru og þjónustu byggða á menningu og menningararfi landsbyggðarinnar. Ferðaþjónustufyrirtæki eða hópar fyrirtækja, sem taka þátt fá aðstoð við stjórnun vöruþróunarverkefnis í menningartengdri ferðaþjónustu. Með verkefninu er verið að auka þekkingu á gæðum og þróun nýrrar vöru og/eða þjónustu.
Um er að ræða 2ja ára stuðningsverkefni í vöruþróun menningartengdrar ferðaþjónustu. Með þessu verkefni er stefnt að því að auka framboð á arðbærri vöru/þjónustu í menningartengdri ferðaþjónustu og stuðla að faglegum lausnum við vöruþróun í greininni. Gert er ráð fyrir að um nokkurs konar klasasamstarf fyrirtækja verði að ræða ýmist svæðisbundið samstarf eða samstarf á landsvísu á faglegum grundvelli.
Vinnufundur verður á Hótel Ísafirði mánudaginn 16. júní kl. 9:30-12:30. Frekari upplýsingar veita: Sigríður Ó. Kristjánsdóttir verkefnastjóri hjá Impru á Nýsköpunarmiðstöð í síma 450-4050 netfang: sirry@nmi.is eða Alda Þrastardóttir, verkefnastjóri hjá Ferðamálastofu í síma 464-9990, netfang: alda@icetourist.is. Einnig á vefjunum www.nmi.is og www.ferdamalastofa.is.