Sá gleðilegi atburður varð 1. maí á suðursvæði Vestfjarðakjálkans að stofnaður var karlakór á vestasta odda Evrópu, á Bjargtöngum við Látrabjarg. Kórinn heitir Karlakórinn Vestri. Að formlegri athöfn lokinni á Bjargtöngum söng kórinn eitt lag. Vestri, útgerðarfélag á Patreksfirði, bauð síðan öllum viðstöddum til kaffisamsætis í Breiðavík eftir stofnfundinn. Allir eru kórfélagar af suðursvæði Vestfjarðakjálkans og voru fimmtán skráðir stofnfélagar. Fyrstu stjórn kórsins skipa Guðmundur V. Magnússon formaður Bíldudal, Ólafur Gestur Rafnsson gjaldkeri Patreksfirði og Torfi Steinsson ritari Stóra-Krossholti.
Æfingar hafa verið haldnar einu sinni í viku að undanförnu. Síðasta æfing kórsins fyrir sumarfrí verður á mánudaginn kemur. Meining kórfélaga er að byrja starfið aftur af fullum krafti í september komandi haust og er það von kórfélaga að fleiri bætist í hópinn.