Fara í efni

Listamannaþing í Listakaupstað 9. apríl

Fréttir

Laugardaginn 9. apríl er fyrirhugað að halda Listamannaþing Vestfjarða á Ísafirði. Þá er kallað saman listafólk í ólíkum listgreinum um alla Vestfirði til skrafs og ráðagerða á eins konar stefnumót. Allir eru velkomnir á Listamannaþingið, en dagskrá stendur á milli 13-16 í Listakaupstað í Norðurtanga, 3. hæð.

Þema þingsins er menningartengd ferðaþjónusta og koma góðir gestir til að ræða um uppbyggingu á því sviði. Einnig miðla fulltrúar einstakra listgreina af reynslu sinni og ræða um og spekúlera í framtíð listarinnar á Vestfjörðum. Fulltrúar listahátíða á Vestfjörðum munu einnig kynna sín verkefni. Fjölmargir listviðburðir verða á Ísafirði um helgina og er hugmyndin að hópurinn taki sig saman og kíki á það sem um er að vera. Listamannaþingið er samvinnuverkefni Menningarráðs Vestfjarða og Listakaupstaðar á Ísafirði.

Þá verður lögð fram hugmynd um stofnun Félags vestfirskra listamanna á Listamannaþinginu. Ef það fær góðar undirtektir verður slíkt félag stofnað á staðnum og kosið í stjórn.

Allar nánari upplýsingar gefur Jón Jónsson, menningarfulltrúi Vestfjarða í síma 891-7372 eða menning@vestfirdir.is.