Síðasta vikan í ágúst verður heilmikil tónlistarvika í tónlistarbænum Ísafirði. Þar renna saman síðustu sumartónleikar og fyrstu áskriftartónleikar Tónlistarfélags Ísafjarðar í tónleikum Prismahópsins á fimmtudagskvöld. Tvíeykið Dúó Stemma ætlar að skemmta leikskólabörnum með óhefðbundnum tónlistarflutningi og tvær af efnilegustu ungu tónlistarkonum landsins halda tónleika í Ísafjarðarkirkju á þriðjudagskvöld. Undirbúningur skólastarfsins í Tónlistarskóla Ísafjarðar er kominn á fullt, en skólasetning verður mánudaginn 1. september kl. 18:00.
Heiðurs- og fagnaðartónleikar í Ísafjarðarkirkju á þriðjudagskvöld kl. 20:00
Elfa Rún Kristinsdóttir, fiðluleikari og Melkorka Ólafsdóttir, flautuleikari halda tónleika í Ísafjarðarkirkju þriðjudagskvöldið 26. ágúst kl. 20:00 og eru tónleikarnir liður í sumartónleikaröð Tónlistarfélags Ísafjarðar. Þær stöllur eru nú á ferð um landið og halda tónleika í nokkrum kirkjum til heiðurs því mikilvæga hlutverki sem kirkjur á Íslandi hafa þjónað í tónlistarlífi landsmanna í gengum aldirnar. Einnig má segja að tónleikarnir séu fagnaðargjörningur þessara ungu tónlistarkvenna vegna þeirra tímamóta að nú er í byggingu tónlistarhús allra landsmanna í Reykjavík.
Á tónleikunum verða eingöngu flutt verk eftir þýska barokktónskáldið Georg Philipp Telemann (1681-1767), nokkrar undurfagrar einleiksfantasíur sem hann samdi fyrir fiðlu og flautu. Báðar eru stúlkurnar sérhæfðar í flutningi slíkra verka, Elfa Rún vann til 1. verðlauna í Bach-keppninni í Leipzig á síðasta ári og Melkorka hefur um árabil sótt tíma til Patricks Gallois í París, en eftir hann liggja frægustu upptökur Telemann fantasíanna fyrir flautu. Hér er því á ferðinni einstaklega vandaður flutningur og tónleikar sem vart má af missa. Aðgangur að tónleikunum er ókeypis en frjáls framlög vel þegin.
Tónlistartríóið Prisma í Hömrum fimmtudagskvöldið kl. 20:00.
Tónleikarnir eru síðustu sumartónleikar Tónlistarfélags Ísafjarðar á þessu ári en jafnframt 1. áskriftartónleikar nýs starfsárs. Aðgangur að tónleikunum er kr.1.500, kr. 1.000 fyrir lífeyrisþega en ókeypis fyrir skólafólk 20 ára og yngra. Tríóið skipa þau Herdís Anna Jónsdóttir víóluleikari, Sólveig Anna Jónsdóttir píanóleikari og Steef van Oosterhout sem leikur á marimbu og hið alíslenska steinaspil sem Páll Guðmundssyni frá Húsafelli hefur smíðað.
Efnisskráin er óvenju fjölbreytt og aðgengileg. Á fyrri hluta hennar eru íslensk verk, m.a. eftir Atla Heimi Sveinsson (Jónasarlög), Jónas Tómasson og þjóðlagasyrpa, litlar perlur úr listasmiðju þeirra Prismafélaga. Eftir hlé verður lög "úr austurvegi". Má þá nefna Sverðdansinn eftir Katsjaturian, Tríó eftir Schostakowitch og fleira.
Dúó Stemma spila fyrir leikskólabörn í Hömrum
Herdís og Steef leika einnig sem “Dúó Stemma” og mun þetta ágæta tvíeyki halda sérstaka tónleika fyrir vestfirsk leikskólabörn í Hömrum á föstudeginum 29. ágúst. Þau hafa sett saman tónlistardagskrár fyrir börn, m.a. þekktar þulur, vísur og ævintýri, sem þau flytja á sérlega skemmtilegan og óhefðbundinn hátt. Þau hafa flutt slíkar dagskrár í um 70 leikskólum á Íslandi og í Hollandi, en auk þess komið fram við ýmis tækifæri, m.a. á Þjóðlagahátíðinni á Siglufirði. Sl. vor hlutu þau viðurkenningu IBBY-samtakanna á Íslandi fyrir framúrskarandi framlag til barnamenningar.