Púkinn, barnamenningarhátíð á Vestfjörðum, verður haldin dagana 31. mars – 11. apríl 2025. Ungmennaráð Vestfjarða valdi þema hátíðarinnar í ár og er það vestfirskar þjóðsögur.
Hægt er að sækja um styrki til að vera með viðburði tengda hátíðinni hér. Markmið með sjóðnum er að tryggja vestfirskum börnum vandaða menningarviðburði til að njóta eða taka þátt í. Viðburðir þurfa ekki að fara fram á meðan á hátíðinni stendur en mælst er til að hægt verði að njóta afraksturs þeirra innan dagsetninga hennar.
Styrkjum er úthlutað til einstakra viðburða, eða raða viðburða. Ekki eru veittir styrkir til rekstrar‐, stofnkostnaðar‐ eða endurbóta eigna eða fyrirtækja. Úthlutað er til lögráða einstaklinga, listhópa, félagasamtaka, stofnana eða fyrirtækja sem koma að menningarviðburðum fyrir börn á Vestfjörðum.
Skilyrði fyrir styrkveitingu
Viðburðir skulu tengjast barnamenningarhátíðinni Púkanum
Viðburðir skulu ætlaðir börnum á grunnskólaaldri
Annað sem hafa ber í huga
Viðburðir á Púkanum eru að kostnaðarlausu nema annað sé tekið fram
Viðburðir sem haldnir eru á öllum þremur svæðum Vestfjarða njóta forgangs
Leitast verður við að tryggja dreifingu viðburða um alla Vestfirði og getur mat úthlutunarnefndar tekið mið af því
Sótt er um í gegnum umsóknarform á heimasíðu Vestfjarðastofu, þar er einnig aðgengilegt matsblað úthlutunarnefndar
Umsóknarfrestur er til og með 23. janúar 2025 og tilkynnt um úthlutanir í byrjun febrúar.
Lokaskil
Styrkir úr sjóðnum eru afgreiddir eftir að samningar um styrkveitingu hafa verið undirritaðir og gegn framvísun fjárhagsáætlunar vegna þess verkefnis sem styrkurinn er veittur til.
Endurgreiða skal veitta styrki ef fyrir liggur að þeim hafi ekki verið varið í tilgreind verkefni og innan þeirra tímamarka sem gefin eru. Hægt er að leita til Skúla Gautasonar, verkefnastjóra Púkans, ef verkefnið tekur breytingum frá umsókn að framkvæmd.
Styrkþegar skulu fylla út lokaskýrslu á vef Vestfjarðastofu um ráðstöfun styrksins ásamt uppgjöri og myndum frá viðburði, þegar viðkomandi verkefni er að fullu lokið í samræmi við styrksamning styrkþega og Vestfjarðastofu.