Fara í efni

Forvitnir frumkvöðlar - Frumkvöðlaferlið með Arnari Sigurðssyni

Arnar Sigurðsson hjá samfélagslegu tilraunstofunni Austan mána ríður á vaðið í fyrirlestraröðinni Forvitnir frumkvöðlar og fjallar hann um frumkvöðlaferlið. Arnar er flestum hnútum kunnugur á því sviði, er bæði frumkvöðull sjálfur, jafnframt því sem hann hefur aðstoðað fjölda fólks við að koma verkefnum sínum á koppinn. Arnar hefur lengi verið virkur þátttakandi í nýsköpunarumhverfi Íslands, til að mynda sem fyrirlesari, ráðgjafi og kennari á háskólastigi og síðast en ekki síst við að þróa og leiða hafnar.haus, sem er vinnurými og samfélag um 250 listamanna, frumkvöðla og annars skapandi fólks í miðbæ Reykjavíkur.

Frumkvöðlaferlið verður á TEAMS, þriðjudaginn 7. janúar og hefst kl. 12. Erindið tekur um 45 mínútur og í kjölfarið gefst kostur á að leggja fram spurningar. Hægt er að taka þátt með því að smella hér

Forvitnir frumkvöðlar eru sameiginleg mánaðarleg fræðsluerindi landshlutasamtakanna Austurbrúar, SASS, SSNE, SSNV, SSS, SSV og Vestfjarðarstofu. Fræðsluhádegin eru öllum opin, en þau gagnast sérlega vel frumkvöðlum og áhugafólki um nýsköpunarsenuna.

Fræðsluhádegi landshlutasamtakanna
- Fyrsta þriðjudag hvers mánaðar
Landshlutasamtökin: Austurbrú, SASS, SSNE, SSNV, SSS, SSV og Vestfjarðarstofa standa að mánaðarlegum fræðsluerindum fyrsta þriðjudag í mánuði. Fjölbreytt fræðsla í boði fyrir frumkvöðla og önnur áhugasöm um nýsköpunarsenuna. Fræðsluhádegin eru öllum opin og að kostnaðarlausu!
 

Hvað eru landshlutasamtökin?
Öll sveitarfélög á Íslandi eru aðilar að landshlutasamtökunum, en Landshlutasamtök sveitarfélaga eru hagsmunasamtök sveitarfélaga á tilgreindum starfssvæðum. Meginhlutverk allra landshlutasamtaka er að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum.