
Reykhólahreppur er þátttakandi í byggðaþróunarverkefninu Brothættar byggðir. Gerður var samningur um verkefnið til fimm ára, eða frá upphafi árs 2025 til ársloka 2029, sem er lenging um eitt ár frá því sem áður hefur tíðkast. Með lengingu framkvæmdatímabils standa vonir til að hægt verði að ná auknum árangri og skjóta styrkari stoðum undir atvinnulíf, mannlíf og búsetu í Reykhólahreppi. Verkefnisstjóri er Embla Dögg Bachmann og er hún með aðstöðu á skrifstofu Reykhólahrepps.
Verkefnið er samstarfsverkefni heimamanna, Reykhólahrepps, Byggðastofnunar og Vestfjarðastofu og er verkefnisstjórn skipuð fulltrúum þessara aðila.
Aðalmarkmið Brothættra byggða er að sporna við viðvarandi fólksfækkun í smærri byggðarlögum. Undirmarkmið verkefnisins eru eftirfarandi:
- Að auka viðnámsþrótt brothættra byggðarlaga gegn hnignun svo sem fólksfækkun, skekktri aldursdreifingu og áföllum í atvinnulífi.
- Að virkja frumkvæði og samtakamátt íbúa og auka vitund þeirra um eigin þátt í þróun samfélagsins.
- Að gefa íbúum kost á að taka þátt í forgangsröðun málefna.
- Að stilla saman strengi ríkis, sveitarfélags, opinberra stofnana, atvinnulífs og íbúa í ákvörðunum sem varða viðkomandi byggðarlag.
- Að nýta verkefnið til að vekja athygli á viðfangsefnum sem eiga við í fleiru en einu byggðarlagi og leita lausna á þeim í samstarfi við stjórnvöld og aðra hagsmunaaðila.
Verkefnisstjórn skipa:
Hrefna Jónsdóttir, fulltrúi sveitarstjórnar
Aðalsteinn Óskarsson, fulltrúi Vestfjarðastofu
Vésteinn Tryggvason og Guðlaug Guðmunda I. Bergsveinsdóttir, fulltrúar íbúa
Kristján Þ. Halldórsson og Helga Harðardóttir, fulltrúar Byggðastofnunar.