66. Fjórðungsþing Vestfirðinga að hausti hófst í dag á Ísafirði. Á þinginu kemur saman sveitarstjórnarfólk af öllum Vestfjörðum og ræða sameiginleg málefni landshlutans. Þinginu er streymt á facebooksíðu Vestfjarðastofu og er hægt að nálgast streymið hér.
Jóhanna Ösp Einarsdóttir formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga hóf þingið á ávarpi, í ávarpi sínu kom Jóhanna inn á þær áskoranir sem Vestfirðingar standa frammi fyrir og þá baráttu sem svæðið hefur staðið í. Jóhanna lagði þó sérstaka áherslu á þau miklu tækifæri sem sveitarfélögin á Vestfjörðum standa frammi fyrir.
Í dag verður einnig kynning á þeirri fjölbreyttu starfsemi sem er innan Vestrahússins á Ísafirði og verður þinggestum boðið að ganga um húsið, hlusta á stuttar kynningar og smakka á léttum veitingum.
Síðar í dag verða vinnustofur þar sem fjallað verður meðal annars um sameiningar sveitarfélaga, stafrænar umbreytingar og húsnæðismál, en það eru allt málefni sem snerta sveitarfélögin á Vestfjörðum mikið.