Marsibil G. Kristjánsdóttir, bæjarlistamaður Ísafjarðarbæjar, opnar sýninguna Kirkjur á Vestfjörðum kl. 17 á föstudag í Safnaðarheimili Ísafjarðarkirkju og mun hún standa næstu tvær vikur. Um sölusýningu er að ræða. Boðið verður uppá léttar veitingar á opnuninni á föstudaginn. Allar myndirnar eru í grafík og eru unnar á þessu ári.
Í sýningunni Kirkjur á Vestfjörðum er brugðið upp mynd af fjölbreytileika þessara bygginga á Vestfjörðum. Mikill munur er t.d. á byggingastíl Ísafjarðarkirkju og Gufudalskirkju en báðar þessar kirkjur koma við sögu í sýningunni Kirkjur á Vestfjörðum. Á sýningunni eru myndir af alls tíu kirkjum af öllum Vestfjörðum. Stefnt er að því að sýningin fari á flakk um Vestfirði með vorinu. Verkefnið er styrkt af Menningarráði Vestfjarða.