Sveitarfélögin á Vestfjörðum hafa gert með sér samning um sérhæfða velferðarþjónustu á svæðinu og var tækifærið nýtt á Fjórðungsþingi Vestfirðinga til undirritunar. Átta sveitarfélög af níu í fjórðungnum eru aðilar að samningnum en von er á að Strandabyggð bætist í hópinn áður en langt um líður.
Á Fjórðungsþingi Vestfirðinga að hausti á síðasta ári var kannaður grundvöllur þess að setja á stofn samþætta þjónustu innan svæðisins sem hefði með höndum þjónustu við fatlað fólk, barnaverndarþjónustu og samræmda móttöku flóttafólks. Í kjölfarið var skipaður starfshópur sem vann að gerð samræmds samnings um þjónustuna og sem áður segir var fullmótaður samningur til eins árs undirritaður á föstudag.
Ísafjarðarbær er leiðandi sveitarfélag samkvæmt samningnum og gefa hin sveitarfélögin honum vald til ákvarðanatöku í málaflokknum. Almenn velferðarþjónusta verður þó áfram rekin hjá sveitarfélögunum og skiptist niður á fjögur velferðarsvæði. Á norðursvæðinu verða þau tvö, annars vegar Ísafjarðarbær og Súðavík og hins vegar Bolungarvíkurkaupstaður, Á Ströndum mynda Árneshreppur, Kaldrananeshreppur, Reykhólahreppur og Strandabyggð sameiginlega velferðarþjónustu og á suðursvæðinu er það Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppur.