Alls bárust 110 umsóknir um styrki til menningarverkefna í fjórðungnum til Menningarráðs Vestfjarða að þessu sinni, en frestur til að sækja um rann út um miðjan mars. Um er að ræða fyrri úthlutun styrkja á árinu 2008, því ákveðið hefur verið að aftur verði auglýst eftir styrkumsóknum snemma í haust. Þetta eru ívið fleiri umsóknir en bárust á árinu 2007, en þá bárust Menningarráðinu 104 umsóknir. Þá fengu 52 menningarverkefni styrki á bilinu 50 þúsund til 1,5 milljón, samtals rúmlega 20 milljónir. Heldur lægri upphæð verður til úthlutunar að þessu sinni vegna þess að úthlutanir eru tvær á árinu, en búast má við að um samtals verði um 30 milljónir settar í styrki á árinu 2008.
Fjölmargar áhugaverðar umsóknir bárust og greinilegt af fjölbreytni og fjölda umsókna að mikill hugur er í Vestfirðingum við að viðhalda öflugu menningar- og mannlífi í fjórðungnum. Verkefnin eru margvísleg og margir umsækjendur eru stórhuga og með áhugaverð og spennandi áform. Endurspegla þær vel þá grósku sem er er í vestfisku menningarstarfi, uppbyggingu þess og þróun. Þessi mikli fjöldi umsókna gefur líka glögga mynd af því að menningarstarfsemi á Vestfjörðum er mikil og blómleg og sýnir ennfremur hversu mikil þörf hefur verið fyrir sjóð eins og þann sem Menningarráðið hefur úr að spila.
Menningarráð hefur þegar hafist handa við að grandskoða umsóknir og fjalla um þær og mun endanlegrar niðurstöðu vera að vænta eftir miðjan apríl. Þær upphæðir sem sótt er um eru umtalsvert hærri en það fjármagn sem sjóðurinn hefur úr að spila, en samtals var sótt um styrki að upphæð tæpar 86 milljónir. Sjóðurinn er samkeppnissjóður, þannig að þeir sem gert hafa vandaðar umsóknir fyrir góð verkefni sem falla að úthlutunarreglum og markmiðum sjóðsins eiga góða von um stuðning.