Fara í efni

30 ár frá snjóflóðinu í Súðavík

Fréttir

Í dag eru liðin 30 ár frá því er mannskætt snjóflóð féll á byggðina í Súðavík. Flóðið heimti 14 mannslíf þar af átta börn. Atburðirnir höfðu mikið áhrif á samfélagið á Vestfjörðum og lifa enn með þeim sem þá upplifðu. Þó margt hafi breyst á þrjátíu árum er ekkert sem getur búið fólk undir slíkan voða og hefur ekkert bætt það skarð sem snjóflóðin árið 1995 skildu eftir sig.

Margir hafa í dag og undanfarið minnst þessa dags fyrir þrjátíu árum. Einn þeirra er Hjalti Már Hjaltason sem var skipstjóri á Fagranesinu og kom björgunarliði frá Ísafirði til Súðavíkur við hreint skelfilegar aðstæður. Einnig hefur verið rætt við fólk sem bjargaðist úr flóðinu, aðstandendur og fólk sem tók þátt í björgunarstörfum. Þó það kunni er að vera sárt ert mikilvægt að halda minningunni lifandi og draga þann lærdóm sem hægt er af þessari þungbæru reynslu. Aðstandendur hafa lengi hafa kallað eftir óháðri rannsókn á málsatvikum í aðdraganda flóðsins og eftir það og við upphaf árs tók til starfa rannsóknarnefnd um snjóflóðið í Súðavík 1995.

Hugur okkar er hjá Súðvíkingum og þeim sem hafa átt um sárt að binda vegna þessara hörmungaatburða. Megi allt gott í heiminum vaka yfir ykkur og ljós lýsa minningu þeirra sem fórust.

Minningarstund verður haldin í Súðavík í dag. Þá verður safnast saman hjá minnisvarða við samkomuhúsið og lagt af stað í blysför klukkan 16:40. Athöfn hefst svo í Súðavíkurkirkju klukkan fimm þar sem sóknarprestur fer með bæn og kveikt verður á kertum. Einnig verður helgistund í Guðríðarkirkju í Reykjavík klukkan 20 í kvöld.