Leiklistarhátíðin Act alone á Ísafirði verður haldin dagana 2.-6. júlí í sumar og er þetta fimmta árið í röð sem hátíðin er haldin. Act alone er eina árlega leiklistarhátíðin á Íslandi og er aðgangur ókeypis, en sá háttur hefur verið hafður á frá upphafi. Það er Kómedíuleikhúsið á Ísafirði sem stendur fyrir Act alone og er Kómedíuleikarinn, Elfar Logi Hannesson, listrænn stjórnandi gleðinnar.
Undirbúningur fyrir Act alone 2008 er langt kominn og vinnur nú listrænn stjórnandi að mótun dagskrárinnar en enn er þó hægt að bæta við nokkrum sýningum og einleiknum listauppákomum. Þeir sem hafa áhuga á að koma með einleik eða einleikna uppákomu á Act alone 2008 eru beðnir um að setja sig í samband við hátíðarhaldara á netfangið komedia@komedia.is.
Act alone hátíðin hefur stækkað ár frá ári í fyrra bættist t.d. myndlistin inn í dagskrána þegar boðið var uppá sýningu á verkum tveggja einfara í íslenskri myndlist. Í ár bætast tvær nýjar listgreinar inní Act alone flóruna það er dans og tónlist. Act alone er því ekki aðeins leiklistarhátíð heldur er hún nú orðin fjölbreytt listahátíð. Act alone hefur þegar sannað tilgang sinn og er í dag ein stærsta listahátíðin á landsbyggðinni. Þegar hafa verið bókaðar tvær einleiknar danssýningar og einnig verður boðið upp á einleik á fiðlu.
Fjölmargir íslenskir einleikir verða á dagskrá Act alone 2008 og alla vega tvær erlendar gestasýningar, þar á meðal er verðlaunasýning frá Búlgaríu sem nefnist Chick with a Trick. Nánari upplýsingar um Act alone eru á heimasíðu hátíðarinnar www.actalone.net.