Fara í efni

Aðgerðir stjórnvalda vegna Covid 19

Fréttir

Ríkisstjórn kynnti í gær aðgerðapakka 2 vegna áhrifa heimsfaraldursins Covid 19 á efnahag og samfélag. Markmið aðgerða ríkisstjórnarinnar er að verja grunnstoðir samfélagsins, vernda afkomu fólks og fyrirtækja, og tryggja öfluga viðspyrnu fyrir íslenskt efnahagslíf. 

Í aðgerðunum má finna nokkrar aðgerðir sem nýst geta fyrirtækjum og einyrkjum á Vestfjörðum og má þar einkum nefna: 

  • Lokunarstyrkir: Rekstrarstyrkir vegna fyrirmæla um lokun starfsemi. Hér er átt við þau fyrirtæki sem skv. auglýsingu heilbrigðisráðherra var gert að loka, svo sem hárgreiðslustofur, snyrtistofur, líkamsræktarstöðvar o.s.frv. Styrkfjárhæðin er að jafnaði sú sama og rekstrarkostnaður fyrirtækisins á lokunartímabilinu, þ.e. frá 24. mars til og með 3. maí 2020. Styrkur getur þó ekki orðið hærri en 800 þúsund krónur fyrir hvern starfsmann hjá fyrirtæki í febrúar 2020 eða 2,4 milljónir króna á hvert fyrirtæki. Ef fyrirtækið hafði einn starfsmann verður styrkurinn þannig ekki hærri en 800 þúsund krónur, ef fyrirtækið hafði tvo starfsmenn verður hann ekki hærri en 1,6 milljónir króna og ef fyrirtækið hafði þrjá eða fleiri starfsmenn verður hann ekki hærri en 2,4 milljónir króna.
  • Stuðningslán: Rekstrarlán til minni fyrirtækja í lægð vegna faraldursins. Lán að hámarki 6 milljónir að uppfylltum ákveðnum skilyrðum um tekjur, hlutfall launa af rekstrarkostnaði, skil á opinberum gjöldum o.fl. Ríkið gengur í ábyrgð fyrir lánunum, lánin eru óverðtryggð og vaxtakjör þau sömu og af sjö daga bundnum innlánum lánastofnana hjá Seðlabanka Íslands hverju sinni.  
  • Tekjuskattsjöfnun: Heimild til að jafna tap þessa árs á móti hagnaði í fyrra
  • Aðgerðir gagnvart sveitarfélögum eru m.a.:
  • Útvíkkun á hlutverki fasteignasjóðs Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, m.a. að heimilt verði að veita styrki til sveitarfélaga vegna framkvæmda sem hafa þann tilgang að bæta aðgengi fatlaðs fólks í fasteignum og mannvirkjum sem eru á vegum sveitarfélaga. Gert er ráð fyrir að hugtakið aðgengi verði túlkað með rúmum hætti og undir það falli allar framkvæmdir sem tengjast bættu aðgengi fatlaðs fólks.   
  • Endurgreiðsla virðiaukaskatts, það er að sveitarfélögum eða stofnunum og félögum sem alfarið eru í eigu þeirra verði veitt heimild til endurgreiðslu virðisaukaskatts sem þau hafa greitt vegna vinnu manna sem innt er af hendi á tímabilinu 1. mars 2020 til og með 31. desember 2020 á byggingarstað við byggingu, viðhald eða endurbætur á öðru húsnæði en íbúðar- og frístundahúsnæði sem alfarið eru í eigu þeirra. Með húsnæði í þessu sambandi er átt við hús, þ.e. byggingu með veggjum og þaki, eða hluta húss, sem ætlað er til nota í starfsemi hjá sveitarfélögum eða hjá stofnunum og félögum sem alfarið eru í þeirra eigu, og eru varanlega skeytt við land, t.d. skrifstofuhúsnæði, íþróttahús, áhaldahús og vörugeymsla.
  • Sértækur stuðningur til fámennra sveitarfélaga, að í gegnum Byggðaáætlun verði hægt að veita 30 m.kr. stuðning til fámennra byggðarlaga og dreifbýlla svæða þar sem eru að takast á við sérstakar áskoranir tengdar covid-19 faraldursins á m.a. sviði félagslegar þjónustu

Ekki er enn ljóst hvernig útfærsla stuðningsaðgerða verður þar sem harðari aðgerðir vegna sóttvarna voru settar á m.a. á norðanverðum Vestfjörðum og erum við hjá Vestfjarðastofu að fylgjast með hvernig komið verður til móts við fyrirtæki sem verða fyrir enn meiri áhrifum en almennt gerist vegna þeirra aðgerða. 

Á síðu Stjórnarráðsins er yfirlit yfir aðgerðir þar sem helstu spurningum er svarað um aðgerðir fyrir einstaklinga, fyrirtæki, sprota, nýsköpunarfyrirtæki og frumkvöðla, sveitarfélög og fleiri. 

Starfsfólk Vestfjarðastofu fylgist með boðuðum aðgerðum og útfærslum þeirra og reynir eftir því sem mögulegt er að aðstoða einstaklinga og fyrirtæki í atvinnurekstri að finna leiðir til að komast gegnum þessa erfiðu tíma. Hægt er að hafa samband við starfsfólk í gegnum síma og tölvupóst til fá upplýsingar eða bóka lengri viðtöl. Lista yfir starfsfólk, símanúmer og tölvupóst má finna hér