Fara í efni

Afhending menningarstyrkja á Hólmavík

Fréttir

Á sumardaginn fyrsta, þann 24. apríl kl. 14:00, verður athöfn í Félagsheimilinu á Hólmavík þar sem menningarstyrkir frá Menningarráði Vestfjarða vegna fyrri úthlutunar ársins 2008 verða afhentir. Búist er við fjölda góðra gesta til Hólmavíkur af þessu tilefni. Alls verða veittir 47 styrkir að þessu sinni til margvíslegra menningarverkefna, en 110 umsóknir bárust Menningarráði Vestfjarða að þessu sinni. Á dagskránni í Félagsheimilinu eru erindi og afhending styrkja Menningarráðsins vorið 2008 og einnig fá gestir að sjá brot af því besta úr menningarlífinu á Ströndum. Í lokin á þessari formlegu athöfn verður létt kaffihlaðborð í Félagsheimilinu fyrir gesti samkomunnar.

Sama dag, þann 24. apríl, verður opnað nýtt Þróunarsetur og námsver að Höfðagötu 3 á Hólmavík sem sveitarfélagið Strandabyggð hefur undirbúið síðustu misseri. Í Þróunarsetrinu verða ýmsar stofnanir og fyrirtæki með skrifstofuaðstöðu og hafa Menningarráð Vestfjarða, Náttúrustofa Vestfjarða, Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða, Fræðslumiðstöð Vestfjarða, útgáfu- og prentþjónustan Gagnvegur, Þjóðfræðistofa og Strandagaldur þegar tryggt sér aðstöðu þar. Þarna verður opið hús frá kl. 16:00-18:00 og þeir sem hreiðrað hafa um sig í skrifstofunum taka á móti gestum og segja frá starfsemi sinna stofnanna og fyrirtækja. Einnig verður námsver í húsinu, þar sem framhaldsnemar og háskólanemar í fjarnámi fá aðstöðu til að stunda sitt nám og verður starfsemi þess kynnt á opna húsinu. Veitingar verða í boði á Höfðagötunni og allir sem áhuga hafa eru hvattir til að lita við.