Verkefnið Áfram Árneshreppur! hefur úthlutað styrkjum til 13 verkefna sem eiga að verða að raunveruleika í sumar og næsta vetur. Mörg spennandi verkefni fengu brautargengi og eiga eftir að auðga mannlífið og samfélagið í þessu fámennasta sveitarfélagi landsins. Alls bárust 17 umsóknir. Heildarupphæð þessarar styrkúthlutunar var 14,9 milljónir króna. Það er talsvert meira en áður, þar sem ríkisstjórnin ákvað að leggja aukaframlag til úthlutunar með því skilyrði að verkefnin hæfust fyrir 1. september og að þeim yrði lokið fyrir 1. apríl 2021.
Stærsti styrkurinn, 3.880.000kr, fór til að gera endurbætur á búningsaðstöðu við Krossneslaug sem er af mörgum talin ein skemmtilegasta sundlaug landsins. Hún var gerð árið 1954 og rétt fyrir ofan fjöruna svo gestir horfa út yfir hafflötinn þegar þeir slaka á í lauginni. Það er ungmennafélagið Leifur heppni sem sér um rekstur laugarinnar.
Annað stórt verkefni er uppbygging á Baskasetri sem mun fjalla um veru Baska hér á landi, en þeir stunduðu sjávarnytjar hér um langt skeið fyrr á öldum. Einnig verður saga Spánverjavíganna rakin, en sýslumaðurinn Ari í Ögri lét elta uppi og drepa áhafnir þriggja baskneskra skipa sem höfðu farist í Reykjarfirði. Setrið og sýningin verður sett upp í risavöxnum lýsistanki í gömlu síldarverksmiðjunum í Djúpavík. Verkefnið fékk styrkvilyrði fyrir 2.500.000 kr.
Verkefnið Djúpavíkurhús snýst um að hanna og framleiða smáhýsi sem verða síðan seld um allt land. Húsin eru hugvitssamlega innréttuð þannig að rýmið nýtist sem best og mjög skemmtileg í útliti. Húsin verða framleidd i Djúpavík eins og nafnið bendir til. Verkefnið fékk styrkvilyrði fyrir 800.000 kr.
Ómar Bjarki Smárason fékk 800.000 kr. styrk til að kortleggja og gera aðgengilegar upplýsingar um hina merkilegu jarðfræði Árneshrepps, en það vita kannski ekki allir að í Árnesdalnum er miðja megineldstöðvar sem er talsvert yngri en Vestfirðir annars.
Kristjana Svarfdal fékk styrk upp á 1.500.000 kr. til að koma upp jógasetri í gamla renniverkstæðinu í síldarverksmiðjubyggingunum í Djúpavík. Bjart og fallegt rými sem gæti orðið einstakt þegar það verður búið að taka það í gegn og mun örugglega verða góð upplifun að stunda jóga í friðsældinni sem þar ríkir.
Veittur var 600.000 kr. styrkur til að kaupa öryggisbúnað fyrir Sleðaferðir á Ströndum, m.a. Tetra-talstöðvar. Það var sett sem skilyrði að björgunarsveitin hefði aðgang að þeim ef á þyrfti að halda. Sleðaferðirnar njóta sívaxandi vinsælda enda magnað svæði sem farið er um.
The Factory er myndlistarsýning margra spennandi listamanna af ýmsu þjóðerni sem sýnir í sal verksmiðjubyggingarinnar í Djúpavík. The Factory er stýrt af Emilie Dalum sem hefur séð um þetta verkefni í mörg ár, en alls hafa verið myndlistarsýningar í þessu rými frá því um aldamót. Verkefnið fékk 500.000 kr. styrkvilyrði.
900.000 kr. styrkur var veittur til að bæta aðstöðu á tjaldstæði við Urðartind í Norðurfirði. Þar er nú verið að leggja lokahönd á vatnssalerni og snyrtingu fyrir tjaldferðalanga.
Verið er að hanna flóttaherbergi (Escape Room) í Djúpavík. Þetta er spennandi þraut fyrir unga sem aldna sem reynir á útsjónasemi og að leggja saman vísbendingar til að fá út rétta niðurstöðu. Annars kemstu ekki út! Reiknað er með því að herbergið verði tilbúið næsta sumar. Verkefnið hlaut 1.000.000 kr. styrkvilyrði.
Elsa Rut Jóhönnudóttir fékk 130.000 kr. styrk til að þróa áfram ullarvinnslu, en þessi unga kona hefur verið að gera ákaflega skemmtilegar tilraunir með ull og lopa. Vörur hennar eru m.a. seldar í Verzlunarfjelagi Árneshrepps og njóta mikilla vinsælda, enda skemmtilega og óvanalegar.
Verzlunarfjelagið fékk líka styrk upp á 380.000 kr. til að bæta kaffiaðstöðu fyrir gesti, enda þjónar þessi litla verslun ekki síst sem samfélagsmiðstöð í Árneshreppi. Þar hittast sveitungar og gestir og leysa lífsgátuna.
Í verksmiðjubyggingunum í Djúpavík er sögusýning um tilurð og starfsemi verksmiðjunnar, sem var reist á árunum 1934-5, að mestu með handafli. Sýnt er hvernig menn leystu risavaxin verkefni með hugvitsemi og samtakamætti. Sögusýningin fékk 500.000 kr. styrk, ekki síst til að gera söguskilti um m.s. Suðurlandið, en stefni þess er í fjörunni í Djúpavík. Það er afar myndrænt og er ljósmyndað í tætlur á hverju sumri.
Ferðamálasamtök Árneshrepps fengu myndarlegan styrk, 1.400.000 kr. til hönnunar og útgáfu á markaðsefni til að laða fólk til Árneshrepps. Að samtökunum standa allir ferðaþjónar í hreppnum og kemur það mörgum á óvart hve margt er að sjá og upplifa í Árneshreppi.
Verkefnisstjórn Áfram Árneshrepps! samþykkti þessa styrkveitingu að fengnu áliti úthlutunarnefndar á fundi sínum þann 29. maí sl. Vanhæfnisreglna var gætt í hvívetna.