Fara í efni

Áhersla á minna sótt svæði og lengingu ferðatímabilsins hjá Framkvæmdasjóði ferðamannastaða

Fréttir

Í gær, 12. september opnaði fyrir umsóknir í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða fyrir verkefni sem eiga að koma til framkvæmda árið 2025. Umsóknarfrestur er til kl. 13:00 þriðjudaginn 15. október n.k..

Í ár er sérstök áhersla lögð á styrkveitingar til verkefna sem snúa að minna sóttum svæðum og lengingu ferðatímabilsins. Þetta er mikilvæg þróun fyrir Vestfirði, þar sem svæðið býður upp á ótal tækifæri til að byggja upp ferðamannastaði á svæðum sem hafa hingað til verið minna nýtt. Markmiðið er að auka aðgengi ferðamanna að þessum einstöku stöðum, bæði utan og innan háannatímabilsins.

Framkvæmdasjóðurinn styrkir meðal annars framkvæmdir sem tengjast öryggi ferðamanna, náttúruvernd, og uppbyggingu nýrrar aðstöðu á ferðamannastöðum.

Umsóknir eru metnar út frá gæðaviðmiðum sjóðsins, og nýtt gæðamatsblað er nú í gildi.

Umsækjendur eru hvattir til að kynna sér möguleika á styrkjum, sérstaklega ef um er að ræða verkefni sem stuðla að náttúruvernd eða öryggi.

Síðustu ár hafa sveitarfélög á Vestfjörðum nýtt sér sjóðinn með góðum árangri. Til dæmis fékk Reykhólahreppur rúmar 52 milljónir til uppbyggingar Kúalaugar, endurbætur og öryggisatriði við Norðurfjarðarhöfn fengu 55 milljónir og Ísafjarðarbær fékk tæpar 23 milljónir fyrir áningastað og stígagerð í Valagili.

Nánari upplýsingar um sjóðinn má finna á síðu Ferðamálastofu.