Fara í efni

Aldrei fór ég suður fékk Eyrarrósina 2008

Fréttir

Tónlistarhátíðin Aldrei fór ég suður sem haldin verður á Ísafirði um páskana fékk í gær afhenta Eyrarrósina 2008 við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Eyrarrósin eru helstu verðlaun sem afhent eru til menningarverkefna á landsbyggðinni og eru ár hvert veitt einu framúrskarandi verkefni. Fylgja peningaverðlaun að upphæð 1,5 milljónir. Önnur verkefni sem valin voru úr hóp umsækjenda um verðlaunin í hóp þriggja verkefna sem til greina komu að þessu sinni voru Safnasafnið í Eyjafirði og karlakórinn Heimir í Skagafirði.


Í úrskurði nefndarinnar segir að Aldrei fór ég suður sé óvenjuleg og spennandi tónlistarhátíð, þar sem ungt fólk er í fararbroddi. Merk tónlistarhefð svæðisins  samtvinnuð því nýjasta sem er að gerast í tónlistarlífi landsins. Verkefnið hefur á undanförum árum vaxið og eflst og vakið mikla athygli langt út fyrir landsteinana og skipar þannig alveg sérstakan sess í öflugu tónlistarlífi landsins. Hefur dregið athygli að landshlutanum með einstöku framlagi eins fremsta tónlistarmanns landsins, Mugison. Öflugur stuðningur kraftmikilla einstaklinga og bæjarfélagsins hafa  tryggt hátíðina í sessi sem eina öflugustu menningarhátíð landsins. Þetta er í annað skipti sem Aldrei fór ég suður er tilnefnt til Eyrarrósarinnar.


Á síðasta ári fékk Strandagaldur Eyrarrósina 2007 fyrir Galdrasýningu á Ströndum og önnur verkefni, þannig að segja má að íbúar Vestfjarðakjálkans séu svo sannarlega framarlega á landsvísu á menningarsviðinu. Menningarráð Vestfjarða óskar aðstandendum Aldrei fór ég suður hjartanlega til hamingju með verðskulduð verðlaun. Verðlaunin eru rós í hnappagat menningarlífs á Vestfjörðum og það á svo sannarlega líka við um hátíðina sjálfa.