Fara í efni

Aldrei fór ég suður um páskana 2009

Fréttir

„Við gerum okkur grein fyrir því að það er þröngt í búi og það fyrsta sem menn skera niður er dekur við einhverja tónleika út á landi. Það er ljóst að Ísafjarðarbær og Menningarráð Vestfjarða styrkja hátíðina í ár og þá er búið að tryggja grunninn að því að hátíðin verður haldin á páskum í ár," segir Guðmundur M. Kristjánssonar, einn aðstandenda tónlistarhátíðarinnar Aldrei fór ég suður, en framkvæmdanefnd hátíðarinnar kom saman milli jóla og nýárs til að fara yfir stöðu mála og ákvarðanatöku vegna næstu hátíðar. Aðspurður hvort nefndin hafi annað húsnæði í huga í ár en á Ásgeirsbakka, þar sem hátíðin hefur verið haldin tvö síðustu ár, segir Guðmundur að ekkert hafi verið ákveðið í þeim efnum.

„Okkur hefur líkað mjög vel að vera niður á Ásgeirsbakka en það hefur ekkert verið þreifað á því hvort það standi til boða í ár. Við munum væntanlega leita til þeirra fyrst." Hann segir hátíðina hafa staðið undir sér á síðasta ári. „Við erum ekki að horfa fram á að þurfa borga skuldir síðasta árs og er markmið okkar að koma alltaf út á núlli. Við erum ekki í þessu til að græða peninga," segir Guðmundur.

Hann segir nefndina ekki búna að ráða rokkstjóra fyrir næstu hátíð en vilji sé innan hennar að rokkstjóri síðustu tveggja hátíða, Hálfdán Bjarki Hálfdánsson, verði rokkstjóri að nýju. „Hann er hins vegar í fullu starfi hjá Ísafjarðarbæ sem upplýsingafulltrúi og við munum kannski leita til sveitarfélagsins um að fá að nota hann sem slíkan í gegnum bæinn. Við vitum hins vegar ekki hvernig það verður," segir Guðmundur.

Fréttin er afrituð af fréttavefnum www.bb.is.