Baskasetur Íslands hóf starfsemi með því að opna sýninguna 1615 í einum af síldartönkunum í Djúpavík á föstudag. Sýningin fjallar um hvalveiðar baskneskra sjómanna hér við land og þá skelfilegu viðburði sem ýmist eru nefndir Spánverjavígin eða Baskavígin. Árið 1615 fórust basknesk skip í Reykjarfirði en mannbjörg varð. Skipverjar voru eltir uppi og drepnir eftir mikla eftirför af sýslumanninum Ara í Ögri og mönnum hans.
Baskasetur Ísland hefur unnið að því undanfarin ár að koma upp sýningu sem fjallar um þessa viðburði, veru baskneskra sjómanna hér við land og tengsl Íslendinga við þá. Föstudaginn 7. júní var fyrri áfangi sýningar Baskaseturs opnaður í gömlu síldartönkunum á Djúpavík. Af þessu tilefni var þriggja daga dagskrá tengd sögu Baska á Íslandi í samvinnu við samstarfsaðila í Baskahéruðunum að viðstöddum sendiherrum Spánar og Frakklands. Xabier Agote forstjóri fornbátasafnsins Albaola í Pasaia á Spáni flutti baskneska sjóferðabæn og tónlistarmenn, bæði baskneskir og íslenskir, komu fram, fjölmargir fróðlegir fyrirlestrar voru fluttir og boðið var upp á baskneskan mat af ýmsu tagi. Í Iðunni fræðslusetri var haldið námskeið þar sem kennd var smíði á baskneskum "txlaupa" léttabát undir leiðsögn íslenskra og baskneskra leiðbeinenda og er báturinn til sýnis í Djúpavík, þó ekki sé hann fullgerður.
Baskavinafélagið á Íslandi fékk myndarlegan styrk úr Creative Europe og hefur staðið að viðburðum í löndunum þremur ásamt samstarfsaðilum, m.a. Albaola á Spáni og Haizebegi í Frakklandi og hyllt baskneskan menningararf. Háskólasetur Vestfjarða kemur að verkefninu með áherslu á sambúð manns og sjávar og sjálfbærni. Baskavinafélagið á einnig í samstarfi við listasýninguna the Factory í Djúpavík og við Strandagaldur og Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Ströndum – Þjóðfræðistofu.
Þessi fyrsti hluti sýningarinnar verður opinn almenningi í sumar án endurgjalds. Áætlað er að opna næsta hluta að ári, en þangað til er áætlað að halda áfram ríkulegu menningarsamstarfi milli þjóðanna. Verkefnið hefur m.a. hlotið styrki frá Áfram Árneshreppi, Menningar- og viðskiptaráðuneytinu, Uppbyggingarsjóði Vestfjarða, Byggðaáætlun og Creative Europe.
Aðstendur sýningarinnar eru þeir Héðinn B. Ásbjörnsson, formaður Baskaseturs Íslands, Þórarinn Blöndal, sýningarhönnuður, og Ólafur J. Engilbertsson, formaður Baskavinafélags Íslands.