Fara í efni

Bláa hagkerfið mikilvægt

Fréttir

Dagana 4.-6. júní fór fram ráðstefna félags fiskeldisstöðva í höfuðstöðvum Arion banka. Viðburðurinn var vel sóttur af helstu hagsmunaaðilum innan fiskeldisgeirans og íslenskum fjárfestum. Dagskrá ráðstefnunnar var fjölbreytt og mörg áhugaverð erindi.

Peter Thomson, sérskipaður sendiherra Sameinuðu Þjóðanna fyrir málefnum hafsins, flutti afar áhrifamikið erindi á fyrsta ráðstefnudegi. Þar lagði hann áherslu á bláa hagkerfið og hvernig hafið muni skipta höfuðmáli við að fæða vaxandi mannfjölda heimsins. Það má segja að hin bláu umskipti séu nú þegar hafin á Vestfjörðum með tilkomu sjókvíaeldis og fyrirhugaðrar ræktunar á öðru sjávarfangi.

Ragnheiður Þórarinsdóttir rektor Landbúnaðarháskólans kynnti niðurstöðu norræns verkefnis um viðhorf til fiskeldis. Áhugavert var í niðurstöðunum að almennt þekkingarleysi virðist ríkja hér á landi um fiskeldi og hvaða áhrif það hefur miðað við samanburðarlöndin.

Á ráðstefnunni voru saman komnir bæði aðilar í sjókvíaeldi og landeldi. Aðilar í sjókvíaeldi töluðu af yfirvegun um að þeir telji eldið vera komið yfir byrjunarörðugleika við aðlögun þess á Íslandi. Hjá þeim kom fram að ekki væri gert ráð fyrir miklum fjárfestingum á næsta ári fyrir utan opnun nýrra eldissvæða. Kom fram að eldisaðstæður á Íslandi væru krefjandi og yfir kaldasta tímabilið væri engin vöxtur í laxinum, en að kuldinn skilaði þéttari vöðva og áferðarbetri laxi sem er eftirsóttur. Mikill hugur var aftur á móti í landeldismönnum sem sjá fram á gífurlegar vaxtahorfur til framtíðar á Reykjanesi.

Í orðum forsætisráðherra, Bjarna Benediktssonar, kom fram mikilvægi greinarinnar sem hinnar fjórðu stoðar í útflutningsverðmætum og mikilvægi trausts lagaumhverfis fyrir greinina. Erna Björg Sverrisdóttir aðalhagfræðingur Arion Banka, sýndi að hlutur sjókvíaeldis hafi farið úr 0,8% af heildarútflutningsverðmætum þjóðarinnar í 2,5% undanfarinn áratug. Benti hún á í máli sínu að þar með væri alls ekki öll sagan sögð því þar koma ekki fram aukin umsvif annarra greina sem tengjast eldinu.