Fara í efni

Búlúlala á Ísafirði

Fréttir
Portret af Steini Steinarr - Marsibil G. Kristjánsdóttir
Portret af Steini Steinarr - Marsibil G. Kristjánsdóttir

Búlúlala – Öldin hans Steins er nýtt leikverk fyrir leikara og tónlistarmann sem Kómedíuleikhúsið setur á svið til að minnast aldarafmælis Steins Steinars. Leikurinn verður frumsýndur fimmtudaginn 8. maí í Tjöruhúsinu á Ísafirði. Alls verða þrjár sýningar á Ísafirði og eftir það verður flakkað um Vestfirðina og sýnt á Flateyri og Bíldudal, í Bolungarvík og Haukadal í Dýrafirði. Einnig hefur leikhúsinu verið boðið að sýna leikinn á sérstakri Steins Steinars hátíð á Snjáfjallasetri í Dalbæ á Snæfjallaströnd 21. júní næstkomandi.

Í þessum nýja ljóðaleik, Búlúlala – Öldin hans Steins, eru flutt mörg af þekktustu ljóðum Steins í bland við minna þekkt kvæði. Leikurinn er sambland leikara og tónlistarmanns og er í raun framhald af samstarfi þeirra Elfars Loga Hannessonar leikara og Þrastar Jóhannessonar tónlistarmanns sem hófst í fyrra með ljóðaleiknum Ég bið að heilsa. Í þessum nýja ljóðaleik flytur Elfar Logi  ljóð Steins í leik og tali en Þröstur flytur frumsamin lög við ljóð Steins Steinars. Til samstarfs hafa þeir fengið þriðja listamanninn sem er Marsibil G. Kristjánsdóttir sem hefur gert portretmynd af skáldinu sem gegnir hlutverki leikmyndar í sýningunni.

Eins og margir vita hefur Steinn verið vinsælt myndefni margra myndlistarmanna í gegnum árin og er gaman að fá nú á aldarafmæli Steins nýja mynd af skáldinu eftir vestfirskan listamann. Meðal ljóða sem koma við sögu í Búlúlala – Öldin hans Steins má nefna Að frelsa heiminn, Barn, Miðvikudagur, Söngvarinn, Tindátarnir, Þjóðin og ég og að sjálfsögðu ljóðið Búlúlala sem leikurinn er nefndur eftir.

Steinn Steinarr er án efa eitt þekktasta og jafnframt umdeildasta ljóðskáld síðustu aldar. Hann hét réttu nafni Aðalsteinn Kristmundsson og fæddist 13. október árið 1908 á Laugalandi í Nauteyrarhreppi. Þegar Steinn kom fram á ritvöllinn hóf hann þegar að brjóta reglur sem ríkt höfðu í skáldskap hér á landi um langa hríð og varð umdeildur fyrir vikið. Harðorðar greinar birtust í blöðum um Stein og margir sögðu skáldskap hans vera vitleysu eina. Aðrir á hinn bóginn fögnuðu framlagi hans og sögðu að loksins væri komið fram skáld sem þyrði að breyta staðnaðri, íslenskri ljóðlist. Ljóð Steins eru þjóðinni mjög kær og við mörg þeirra hafa verið samin lög sem hafa ekki síður notið vinsælda. Steinn Steinarr andaðist 25. maí árið 1958, rétt tæplega fimmtíu ára að aldri.

Kómedíuleikhúsið er á netinu og er slóðin www.komedia.is. Miðapantanir fara fram á vef leikhússins.

Leikari: Elfar Logi Hannesson
Tónlistarmaður: Þröstur Jóhannesson
Leikmynd: Marsibil G. Kristjánsdóttir