Innviðafélag Vestfjarða heldur í dag opinn fund með oddvitum framboðanna í Norðvesturkjördæmi. Fundarefnið er samgöngur á Vestfjörðum, samgöngubætur, samgönguáætlun, og þær hugmyndir sem fram hafa komið hjá Innviðafélagi Vestfjarða um sérstakan samgöngusáttmála - Vestfjarðalínu. Fjórðungsþing Vestfirðinga samþykkti í síðasta mánuði stuðning við hugmyndir Innviðafélags Vestfjarða, sem fela í sér fimm ný göng og tvöföldun Vestfjarðaganga auk vegbóta sem tryggi láglendisvegi milli atvinnusvæða.
Fundurinn verður haldinn í Alþýðuhúsinu á Ísafirði (Ísafjarðarbíó) og hefst klukkan 17. Fundurinn verður einnig í beinni útsendingu á risa skjá á Skútanum á Patreksfirði. Gísli Freyr Valdórsson, stjórnandi hlaðvarpsins Þjóðmála, og Stefán Einar Stefánsson, ritstjóri Spursmála Morgunblaðsins, stýra umræðum.
Fundurinn er öllum opinn og eru Vestfirðingar eindregið hvattir til að mæta og veita þessu mikilvæga og metnaðarfulla verkefni lið.
Að Innviðafélagi Vestfjarða standa öflug fyrirtæki sem staðsett eru á Vestfjörðum. Talsmaður félagsins er Guðmundur Fertram Sigurjónsson, stofnandi og forstjóri Kerecis.