Hugmyndasöfnunin Ísafjörður – okkar miðbær er liður í verkefninu Nýsköpunarbærinn Ísafjörður sem gengur út á efla Ísafjörð sem nýsköpunarbæ og ýta undir og efla hugarfar nýsköpunar á svæðinu. Einnig að tengja saman miðbæinn og hafnarsvæði í gegnum vinnu á aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar. Afurð verkefnisins verða mótaðar hugmyndir og framtíðarsýn fyrir svæðið sem nær frá Torfnesi, út Eyrina út að hafnarsvæði.
Hugmyndasöfnun er opin öllum og stendur yfir frá 5.-31. júlí 2021 á vefnum Betra Ísland.
Óskað er eftir fjölbreyttum hugmyndum um hvernig má efla svæðið umhverfis miðbæ Ísafjarðar, frá Torfnesi út að hafnarsvæði og eru allir sem hafa áhuga á þróun og uppbyggingu svæðisins hvattir til að taka þátt.
Hugmyndirnar
Hugmyndirnar þurfa að rammast innan þess svæðis sem verkefnið tekur til, eða frá Torfnesi út að hafnarsvæði (sjá kort). Þegar hugmyndir eru settar inn er hægt að merkja inn á kort hvar þær eiga að vera staðsettar.
Þátttakendur eru hvattir til að hlaða upp mynd með hugmyndum sínum.
Til að taka þátt er hægt að skrá sig inn með rafrænum skilríkjum, netfangi eða í gegnum Facebook aðgang.
Hugmyndirnar má setja fram á íslensku eða ensku.
Ef fólk þarf aðstoð við að hlaða upp hugmyndum, myndum eða hefur spurningar varðandi verkefnið má hafa samband við starfsmann verkefnisins, Steinunni Ásu (steinunn@vestfirdir.is).
Tímarammi
Hugmyndasöfnunin er opin frá 5-31. júlí 2021. Á meðan henni stendur er hægt að kjósa um hugmyndir og koma með rök með og á móti. Eftir að hugmyndasöfnunin lokar verður áfram hægt að kjósa sínar uppáhalds hugmyndir til og með 16. ágúst.
Unnið verður úr hugmyndum í sumar ásamt hugmyndum frá fundum með íbúum og mun fjöldi atkvæða hafa áhrif á það hvaða hugmyndir verða settar í forgang, með tilliti til raunhæfni.
Niðurstöður
Niðurstöður úr hugmyndasöfnuninni verða nýttar í gerð framtíðarsýnar um miðbæ Ísafjarðar og munu einnig nýtast við hönnun Nýsköpunarmílunnar, leiðar sem innifelur áhugaverða staði í nýsköpun á svæðinu. Þessa framtíðarsýn verður hægt að nýta í vinnu við gerð nýs aðalskipulags Ísafjarðarbæjar sem nú er í vinnslu.
Nánari upplýsingar um verkefnið má finna hér.
Allir sem hafa áhuga á að hafa áhrif á þróun miðbæjar Ísafjarðar eru hvattir til að taka þátt.