Undirbúningur nýrrar námsbrautar við Menntaskólann á Ísafirði sem hefur hlotið nafnið hafbraut stendur enn yfir. Ákall hefur verið eftir námi á framhaldsskólastigi sem veitir ungu fólki sem hyggur á störf í fiskeldi og haftengdum greinum viðeigandi þekkingu og þjálfun. Í janúar á þessu ári undirritaði Menntaskólinn á Ísafirði samstarfssamning við fiskeldisfyrirtækin Arctic Fish, Arnarlax og Háafell, auk Vestfjarðastofu, um nám sem kenndi grunnþætti slíkra starfa. Gengið var til samninga við Sigríði Gísladóttur, dýralækni, að taka að sér verkefnisstjórn við uppbyggingu brautarinnar í marsmánuði. Sigríður segir að þó ekki hafi gengið eins hratt að koma brautinni á laggirnar og vonast var til í upphafi gangi undirbúningur ágætlega og í mörg horn sé að líta við verk sem þetta.
Búið er að skoða hinar ýmsu útfærslur sem gætu hentað námsbraut sem þessari og hafbrautin tekið á sig skýrari mynd. Þar verður lögð áhersla á að nemendur hljóti undirbúning fyrir sérhæfð störf í fiskeldi og haftengdum greinum, jafnframt því sem þeir fái þjálfun í fjölbreyttum störfum í fiskeldisfyrirtækjum og sjávarútvegi. Náminu er ætlað að styðja við faglega umræðu og siðferðislega vitund nemenda með því að sýna fram á samhengi líffræði, tækni, efnahags og þolmarka náttúrunnar. Markmiðið er að nemendur öðlist virðingu fyrir náttúrunni og umhverfinu með því að læra bestu aðferðirnar við að vinna með lifandi dýr í atvinnugrein sem byggir á nýtingu náttúrulegra auðlinda.
Brautinni lýkur með framhaldsskólaprófi á 2. þrepi en er einnig ætlað að verða góður grunnur fyrir áframhaldandi nám á stúdentsbraut og hentar vel fyrir þá sem stefna að starfi eða frekara námi í fiskeldi eða tengdum atvinnugreinum. Brautin verður skipulögð og henni stýrt frá Menntaskólanum á Ísafirði en boðið verður upp á nám við hana í samstarfsskólum MÍ í Grundarfirði, Sauðárkróki, Neskaupstað og Vestmannaeyjum.
Enn er unnið að því að hnýta lausa enda og stefnt er að því að innrita fyrstu nemendurna á hafbraut MÍ haustið 2024.