Dagana 19.-20. mars var haldinn samstarfsfundur í Cork á Írlandi í tengslum við sameiginlegt kall eftir klasaverkefnum á vegum Interreg Aurora og Interreg Northern Periphery and Arctic (NPA) áætlana Evrópusambandsins. Anna Sigríður Ólafsdóttir, verkefnisstjóri hjá Vestfjarðastofu tók þátt í viðburðinum, en hún er nú hluti af teymi Vestfjarðastofu sem tekur þátt í MERSE, NPA-verkefni sem snýr að samfélagslegri nýsköpun í dreifðum byggðum.
Samstarfsfundurinn í Cork bauð verkefnisaðilum tækifæri til að hittast í eigin persónu, kynna sér önnur verkefni og finna rétta samstarfsaðila til að þróa klasaverkefni. Dagskráin innihélt meðal annars kynningu á því hvað felst í klasakallinu, tengslavettvang fyrir gestina og örkynningar á nokkrum fyrirhuguðum verkefnum. Fyrri daginn var boðið til sameiginlegs kvöldverðar á River Lee hótelinu í Cork, þar sem meðal annars borgarstjóri Cork, Dan Boyle, ávarpaði samkomuna og lýsti ánægju sinni með þau áhrif sem ólík samstarfsverkefni á vegum sjóða Evrópusambandsins hefðu haft fyrir Írland.
Samstarfsfundurinn fór fram í Cork Centre for Architectural Education og þangað mættu gestir frá þeim þjóðum sem kost eiga á þátttöku í Norðurslóðaverkefnum sem eru Finnland, Svíþjóð, Noregur, Írland, Grænland, Færeyjar og Ísland. Auk áðurnefndra fundarstarfa var gestunum boðið í siglingu niður ánna Lee sem tengir Cork til sjávar.
Þetta er í fyrsta sinn sem Interreg Aurora og Interreg Northern Periphery and Arctic (NPA) áætlanirnar bjóða sameiginlega upp á klasaverkefni. Verkefnin mega aðeins ná yfir að hámarki ár og eru því með öðru sniði en til að mynda NPA verkefnin sem yfirleitt ná yfir lengra tímabil með hærri fjárhæðum. Klasaverkefnin eru hönnuð til að sameina verkefni sem hafa verið fjármögnuð af hvorri áætlun fyrir sig á tímabilinu 2021-2027. Þar verður bæði hægt að stofna til samstarfs ólíkra þjóða (trans-national) eða yfir landamæri (cross-border). Íslandi gefst aðeins kostur á fyrrnefnda samstarfinu og þurfa í verkefninu að vera í það minnsta tveir aðilar sem koma úr NPA-verkefni og einn sem kemur úr Aurora-verkefni. Kallið opnar þann 8. september og stendur opið til 6. október. Með klasaumsóknum er ætlað að hvetja til samstarfs með það að markmiði að bæta niðurstöður og auka dreifingu þegar unninna verkefna, sem leiðir til aukinna áhrifa fyrir samfélög á norðurslóðum.
Við hjá Vestfjarðastofu erum vongóð um að fundurinn hafi tryggt okkur þátttöku í umsókn fyrir haustið þar sem við í samstarfi við sænska vini okkar úr MERSE sem starfa hjá Mid Sweden University lögðum drög að nýju verkefni byggðu á þeirri þekkingu sem þar hefur aflast.