Vestfjarðastofa er þátttakandi í MERSE sem er verkefni á vegum Norðurslóðaáætlunar Evrópusambandsins. Fyrr í mánuðinum héldu Þórkatla Soffía Ólafsdóttir og Anna Sigríður Ólafsdóttir, starfsmenn Vestfjarðastofu til Írlands á annan staðfund verkefnisins, sem snýr að samfélagslegri nýsköpun. Fundað var um það sem þegar hefur verið gert til þessa og lögð drög að næstu skrefum, auk þess sem örvinnustofur voru haldnar í samfélags-frumkvöðlaferlinu og myndbandagerð.
Þar sem MERSE snýr að samfélagsverkefnum var höfuðáherslan á að kynnast slíkum. Hópurinn fundaði í Údarás na Gaeltachta í Connemara sem er á stærsta Gelísku-svæði Írlands. Údarás na Gaeltachta er svæðisstjórn sem ber ábyrgð á efnahagslegri, félagslegri og menningarlegri þróun og aðalmarkmið stofnunarinnar er að tryggja að írska tungumálið haldi velli sem fyrsta tungumál gelísku svæðanna.
Social Enterprise Academy
Með í för til Írlands voru einnig Anna Björg Þórarinsdóttir, hjá Galdrasýningunni á Hólmavík og Heiðrún Björk Jóhannsdóttir, hjá Netagerðinni á Ísafirði. Tóku þær, ásamt völdum verkefnum frá hinum þátttökulöndunum, þátt í áhugaverðu verkefni sem kallast SEA, eða Social Enterprise Academy. Það snýr að þróun og stuðningi við samfélagsleg nýsköpunarverkefni í gegnum menntun, handleiðslu og tengsl. Einnig leggja þau áherslu á að skapa jákvæðar samfélagslegar breytingar í gegnum þau verkefni sem fara í gegnum námskeiðin þeirra.
Áhugaverð vettvangsferð til Inis Mór
Eitt af því sem gert var í ferðinni var að fara í vettvangsheimsókn til Inis Mór sem er ein þriggja Aran eyja. Hún hefur meðal annars sér þar til frægðar unnið að vera sögusvið í verðlaunamyndinni The Banshees of Inisherin. Eyjan er stærst í eyjaklasanum en er þó aðeins 12 kílómetrar að lengd og 3 kílómetrar að breidd og búa þar um 800 manns. Í heildina búa á eyjunum þremur um 1300 manns.
Sorpsamlag Araneyja
Fyrst var heimsótt sorpsamlag Araneyja þar sem Gerry Mullin tók á móti hópnum og sagði frá hvernig eyjaskeggjum hefur tekist að reka eina bestu og öflugustu endurvinnslu á Írlandi. Þeim hefur til að mynda tekist sérlega vel til með moltugerð þar sem allur lífrænn úrgangur auk pappa er efniviðurinn og geta heimamenn svo fengið til sín moltupoka eða sekki gegn vægu gjaldi. Einnig endurvinna þau gler á staðnum og steypa úr því einingar sem hægt er að kaupa. Þetta eru þrír stærstu flokkar sorps á eftir almennu sorpi. Vel hefur gengið að fá eyjabúa til liðs við sorpsamlagið um að vanda vel til verka við flokkun, sértaklega á Inis Mór, þar sem það er staðsett og hefur það tekist í gegnum öflugt og skilvirkt fræðslustarf.
Samvinnufélag Araneyja
Hópurinn heimsótti Comharchumann Forbartha Arann, sem er samvinnufélag um byggðaþróun á eyjunum og sagði Micheál Ó Goill hópnum frá verkefnum þeirra, sem eru afar fjölbreytt og kunnugleg í eyrum Vestfirðinga. Innviðamálin voru ofarlega á baugi og undir samvinnufélaginu starfar meðal annars orkusamleg eyjanna. Avril Ní Shearcaigh framkvæmdastjóri sagði frá því og hvernig félagið, sem er óhagnaðardrifið, vinnur að því að gera eyjarnar kolefnishlutlausar.
Dún Aonghasa
Þá fór hópurinn í gönguferð að skoða Dún Aonghasa, mikið steinvirki sem reist var fyrir yfir 3000 árum. Virkið var afar tilkomumikið og ekki var minna áhrifaríkt að standa upp á um 90 metra háum klettunum sem það hvílir á. Landslag Inis Mór er grýtt og í gegnum aldirnar hafa heimamenn fundið leiðir til að láta þetta annars lítt frjóa land vinna með sér. Notuðu þeir grjótið til að hlaða steinhólf sem ræktaður var jarðvegur inn í og hentaði þá vel fyrir búpening. Á eyjunni sem ekki er stór, eru um 5000 kílómetrar af hlöðnum steinveggjum.
Aðeins meira um MERSE
MERSE eða Business Models Empowering Rural Social Entrepreneurship voicing the rural norm hefur að markmiði að þróa viðskiptamódel, stuðningskerfi og aðstæður fyrir samfélags-frumkvöðla sem vilja stofna eða þróa samfélagsdrifin verkefni í dreifðum byggðum. Það er Mid Sweden University sem leiðir verkefnið og auk þess taka þátt í því Companion Co-operative Development (SE), KBT Vocational School (NO), The Gaeltacht Authority (IE), University of Helsinki (FI) og Vestfjarðastofa.
Myndir eru af Fésbókarsíðu MERSE, auk þess að koma úr einkasafni.