Fara í efni

Menningarveisla hjá vestfirskum börnum

Fréttir Barnamenningarhátíðin Púkinn

Barnamenningarhátíðin Púkinn hófst þann 31. mars og hefur mikið verið um að vera í menningarlífi vestfirskra barna á meðan á hátíðinni stendur. Púkinn hefur ávallt verið í góðu samstarfi við List fyrir alla sem um árabil hefur komið með skemmtilega listviðburði til barna á Vestfjörðum. Að þessu sinni koma þau á Púkann með verkefnið Árstíðir. Þar fara hinir einstaklega hæfileikaríku Frach-bræður frá Ísafirði um með tónlistardagskrá fyrir mismunandi stig grunnskólanema. Maksymilian Haraldur Frach, Mikolaj Ólafur Frach og Nikodem Júlíus Frach eru tónlistarmenn í heimsklassa og fórst þeim einstaklega vel úr hendi að kynna þessa stórkostlegu klassík Vivaldis fyrir börnunum.

Myndlistarkonan Kateřina Blahutová hefur undanfarna daga unnið með nemendum á grunnstigi við Grunnskólann á Ísafirði með Sæskrímslabúrið og í síðustu viku vann hún sama verkefni Bíldudal. Börnin hafa verið að skapa sín eigin sæskrímsli og setja þau í gagnvirkt fiskabúr. Í dag á milli klukkan 10 og 15 gefst fólki kostur á að sjá sæskrímslin synda um í anddyri GÍ við Austurveg.

Þjóðsöguþemað sem Ungmennaráð Vestfjarða valdi hátíðinni hefur svifið yfir vötnum og þá sérstaklega í þeim viðburðum sem haldnir hafa verið haldnir af ólíkum menningarstofnunum. En það hefur einnig verið nýtt í starfi innan skólanna, líkt og hjá Súðavíkurskóla sem gerði  þessa skemmtilegu stuttmynd út frá þjóðsögunni um Dvergastein. Í dag og á morgun fer fram viðburðurinn Tröllin allt í kringum okkur á Bókasafninu á Patreksfirði frá 14 -18 þar sem sagðar verða tröllasögur. Listasafn Ísafjarðar var um síðustu helgi með námskeið undir yfirskriftinni: Ævintýraheimur myndskreytinga og hanga nú uppi í Safnahúsinu myndir sem börnin gerðu á námskeiðinu.

Í samkomuhúsinu á Baldri á Drangsnesi í dag og á morgun verður sýnt leikritið Goðdalir kl 17 - samstarfsverkefni á milli Grunnskóla Drangsness og á Hólmavíkur. Er þar á ferð virkilega metnaðarfull sýning og styrkti Púkinn slagverkssmiðjur fyrir börnin í tengslum við það verkefni. Á Reykhólum verður í dag árshátíð grunnskólanema, þar verður meðal annars sýndar stuttmyndir sem unnar voru á námskeiði UngRIFF sem var hluti af Púkanum í ár.

Í dag kláraði leikkonan Birgitta Birgisdóttir hringferð sína um Vestfirði þar sem hún var með valdeflandi leikslistarmiðjur fyrir börn á miðstigi grunnskólanna. Lukkaðist verkefnið sérlega vel og var Birgitta í skýjunum með þátttöku og hugrekki barnanna í smiðjunum.

Það er einstaklega dýrmætt og gefandi að fá að taka þátt í því að auka aðgengi barna á Vestfjörðum að listum og menningu. Púkanum lýkur formlega á morgun, en við erum komin í startholurnar með skipulagningu hátíðarinnar að ári, sem verður þá haldin dagana 27. apríl – 8. maí.