Árlegur fundur Markaðsstofa landshlutanna og Ferðamálastofu var haldinn 13. desember á Hilton Reykjavík Nordica. Markmið fundarins er að fara yfir samstarf og samstarfsfleti stofnananna og endurnýjun á samningum. Samningar og samstarfið byggir á því að markaðsstofurnar séu grunneining í stoðkerfi ferðamála í hverjum landshluta fyrir sig og eigi að liðsinna, ríki og sveitarfélögum, fyrirtækjum og einstaklingum innan svæðis vegna ferðaþjónustu. Hlutverk markaðs- og áfangastaðastofa er margþætt, s.s. gerð og framkvæmd áfangastaðaáætlana, aðkoma að stefnumótun og áætlanagerð á landsvísu, vöruþróun og nýsköpun, svæðisbundin markaðssetning o.fl.
Á fundinum var farið yfir rannsóknarþörf og þær rannsóknir sem ferðamálastofa vann á árinu, ný mælaborð ferðaþjónustunnar. Ferðatryggingasjóður og virk leyfi í hverjum landshluta, ásamt fréttum og áskorunum af hverju svæði fyrir sig. Arnar Már Ólafsson ferðamálastjóri sagði á fundinum að heildarskipulagning þessara mála á Íslandi veki eftirtekt og forvitni hjá kollegum hans erlendis. Þá ekki síst starfsemi markaðs- og áfangastaðastofa og sá árangur sem náðst hefur með þeim.