Fara í efni

Dynjandisheiði má ekki við töfum

Fréttir

Í tilefni af fréttum vegna veglagningar um Dynjandisheiði, frestun eða flýtingu framkvæmda þar vill stjórn Vestfjarðastofu og sveitarstjórnir Ísafjarðarbæjar, Bolungarvíkur, Súðavíkurhrepps, Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar koma eftirfarandi á framfæri.

Hin mikla framkvæmd Dýrafjarðargöng mun ekki nýtast til fulls fyrr en vegur um Dynjandisheiði er fullgerður frá Mjólká í Vatnsfjörð ásamt Bíldudalsvegi. Um er að ræða nýjan veg í stað 70 ára gamals vegar sem ekki hefur notið nema lágmarks viðhalds frá upphafi.

Heilsárstenging milli norðan- og sunnanverðra Vestfjarða skiptir miklu máli fyrir vaxandi atvinnulíf og samfélag á Vestfjörðum. Hér skipta máli mánuðir og ár og því mikilvægt að bjóða út næsta áfanga strax á þessu ári þar sem sú framkvæmd tekur 2-3 ár.

Auk heilsárstengingar innan Vestfjarða styttir Dynjandisheiðin ásamt framkvæmdum í Gufudalssveit leiðina Ísafjörður – Reykjavík um 50 km. auk þess að skapa heilsárs hringleið um alla Vestfirði, Vestfjarðaleiðina, 950 km. hring um Vestfirði, Dali og Strandir.

Æskilegt væri að bjóða út alla framkvæmdina í einu til að flýta framkvæmdum og ekki síður til að ná fram eins mikilli hagkvæmni og hægt er. Hvert útboð kostar tíma og peninga auk þess sem fyrirsjáanleiki hlýtur að vera æskilegur fyrir framkvæmdaaðila einnig.

Stjórn Vestfjarðastofu og sveitarstjórnir á norðan og sunnanverðum Vestfjörðum hvetja Alþingi, ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála og Vegagerðina til að taka höndum saman og finna leið til að flýta framkvæmdum á Dynjandisheiði eins og kostur er. Vegakerfið á Vestfjörðum þolir einfaldlega ekki frekari tafir á samþykktum vegaframkvæmdum.