Gríðarlegt fjör var um alla Vestfirði á föstudaginn er lokahátíðir barnamenningarhátíðarinnar Púkans fóru fram. Öllum grunnskólabörnum á svæðinu var boðið til skemmtunar og voru tvær haldnar í Edinborgarhúsinu á Ísafirði, ein í Félagsheimili Bolungarvíkur, Sauðfjársetrinu á Ströndum og Skjaldborg á Patreksfirði. Þar var sýnt frá ýmsu því sem gert hafði verið á hátíðinni sem hófst þann 11. september og stóð til og með 22. september. Þá var boðið upp á skemmtileg lokaatriði sem slógu rækilega í gegn hjá púkaskaranum og hefur mögulega mátt greina titring á jarðskjálftamælum því slíkt var fjörið.
Það voru margar hendur sem lögðust á árarnar við að gera þessa fyrstu hátíð að veruleika. Vestfjarðastofa leiddi vinnuna, en að henni komu allir grunnskólarnir á svæðinu auk menningarstofnana. Allra handa listasmiðjur með ólíku listafólki voru haldnar á meðan á hátíðinni stóð og var samanlagður fjöldi viðburða hátt á sjöunda tuginn. Krakkarnir fengu að kynnast ólíkum listformum í smiðjum innan skólanna: dansi, sagnagerð, myndskreytingu, gervigreindarlist og grímugerð svo eitthvað sé nefnt og einnig voru skemmtilegar smiðjur utan skólanna.
Þema púkans í ár var sögur og voru allir hvattir til að skrifa sögur undir yfirskriftinni Sumarið mitt. Á heimasíðu okkar má sjá helling af sögum og myndum frá vestfirskum börnum sem segja frá því sem á daga þeirra dreif í sumar og hvetjum við ykkur til að kíkja á það hér.
Við hjá Vestfjarðastofu erum alsæl með að þessi hátíð hafi orðið að veruleika og þökkum við öllum þeim sem áttu þátt í því að svo gæti orðið. Við þökkum Barnamenningarsjóði. Styrkveiting hans gerði það að verkum að loks var hægt að leggja af stað í þá vegferð að bjóða vestfirskum börnum upp á hátíð sem þessa og auka með því aðgengi allra að vönduðum listviðburðum og menningarstarfi. Nú er ekkert annað eftir en að leggja hausinn í bleyti og huga að því hvernig vegur Púkans getur vaxið um ókomin ár.