Erna Lea Bergsteinsdóttir hefur verið ráðin í starf verkefnastjóra farsældar hjá Vestfjarðastofu. Auglýst var eftir umsóknum í nóvember síðastliðnum og bárust 10 umsóknir um starfið.
Erna Lea er með meistaragráðu í félagsráðgjöf til starfsréttinda frá Háskóla Íslands. Hún hefur undanfarið starfað sem félagsráðgjafi í barna- og fjölskylduteymi hjá velferðarsviði Kópavogsbæjar. Jafnframt hefur hún reynslu af því að vinna með börnum og unglingum í félagsmiðstöðvum og hefur verið aðstoðarmaður dósents við Háskóla Íslands. Starfsnámi sínu í félagsráðgjöf sinnti Erna meðal annars hjá Vesturbyggð.
Erna er nýr íbúi á Vestfjörðum. Hún verður búsett á Bíldudal og mun vinna á starfsstöð Vestfjarðastofu í Ólafshúsi á Patreksfirði. Erna Lea kemur til starfa hjá Vestfjarðastofu í febrúar og við hlökkum til samstarfsins og bjóðum hana velkomna í hópinn.
Farsældarverkefnið er samstarf Vestfjarðastofu og mennta- og barnamálaráðuneytisins og er til tveggja ára. Verkefnið nær yfir allt starfsvæði Vestfjarðastofu og verkefnastjóri mun vinna með hagaðilum um alla Vestfirði. Markmið verkefnisins eru að samhæfa farsældarþjónustu í sveitarfélögunum á Vestfjörðum og koma á fót svæðisbundnu farsældarráði í landshlutanum.